Færsluflokkur: Dægurmál

Góðar jólamessur.

Útvarpssmessan í Brautarholti hjá sr. Gunnari Kristjánssyni í dag  var  falleg og látlaus, hægt að heyra sönginn fyrir orgelinu. Sama má segja um sjónvarpið. Góð messa hjá herra Karli í gærkveldi.  Fallegast var lagið sem kórinn söng án undirleiks. Orgelið yfirgnæfði samt aldrei sönginn eins og stundum er með pípuorgel.

Að mínu mati er messusöngur fallegastur án hljóðfæris. Hef aldrei þorað að setja þá skoðun mína á prent en hvers vegna ekki? 

 Fór fyrir nokkrum árum  til jólamessu, að hlusta á aldinn prédikara sem er mér hjartfólginn. Tók ömmustúlkuna mína með til að hún gæti líkað kynnst þessum góða prédikara, varð hún þar með fjórða kynslóðin sem átti þess kost að kynnast honum.Prédikarinn brást ekki en söngurinn heyrðist ekki fyrir pípuorgelinu. Mér fannst eins og höfuðið ætlaði að springa, tónarnir voru svo sterkir. Hugsaði með mér að tóneyra mitt væri bara svona lélegt, skammaðist mín óskaplega.

Bragð er að þá barnið finnur. Á heimleiðinni sagði barnið: “Amma,  ég heyrði ekki sönginn það var svo mikill hávaði í orgelinu, mér líður bara illa.” Mér finnst gaman af orgeltónlist, pípuorgelið á vel  við á tónleikum og svoleiðis. Hentar ekki eins vel í messu þar sem tilbeiðsla og lofgjörð nýtur sín best í mannsröddinni þegar sungið er af innlifun og tilbeiðslu.


Gleðilega jólahátíð ágætu bloggarar - jólin eru ljósið í myrkrinu -

Nú styttist í hátíðina senn verður heilagt kl. sex eins sagt er. Allt hljóðnar og kyrrð færist yfir. Þá koma minningar upp í hugann hjá mörgum.  Mér verður hugsað til bernskujóla minna í sveit. Er svo heppinn að eiga minningar sem gott  er að hverfa til. Mín fyrstu bernskujól sem ég man eftir eru aftur í þann tíma þegar ekki var rafmagn Þeim tíma fylgdi oft myrkfælni, sem ég fór ekki varhluta af. Þorði ekki um hús að ganga eftir að myrkva tók nema hafa ljós í hendi.

Eitt kvöld var undantekning. Það var aðfangadagskvöld, þá var ég örugg, fannst að ekkert illt gæti verið á sveimi meðan Jesúbarnið væri gestur.  

Jólaundirbúningur fór fram á heimilinu, allur bakstur og hreingerning, sem alltaf fylgdi mikil stemming. Allt varð að vera  hreint og fágað. Mitt hlutverk var að fægja lampana og þótti mikið vandaverk. Á mannmörgu heimili var ekki gefið að allri ættu til skiptanna í rúmið. Það kom ekki að sök því hinn svokallaði fátækraþerrir eins og það var kallað kom alltaf á Þorláksmessu til að þurrka þvottin. Heilaxs heilagur Þorlákur þótti ekki bregðast.Undirbúningi lauk þegar hangiketið var soðið á Þorláksmessu. 

Kl. sex á aðfangadagskvöld settust allir hreinir og prúðbúnir að jólaborðinu þar sem bæði rjúpur og hangiket voru á boðstólanum. Ekki voru jólagjafir margbrotnar, kerti og spil fastir liðir, ein bók á mann ef hægt var og þótti mikil stógjöf. Tilhlökkun jólanna  samt engu minni en nú. Við áttum sannarlega gleðileg jól.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband