24.1.2010 | 00:04
Ljós lífsins
Allir raunverulegir demantar eru þeirrar náttúru að þeir geta lýst í myrkri. Þó eru til demantar sem lýsa ekki. Vísindamaður einn uppgötvaði hvernig á því stendur. Demantarnir verða fyrst að vera í sólarbirtu eða sterku rafmagnsljósi til þess að geta lýst í myrkri. Þannig ætlaðist Guð til þess að allir menn yrðu ljósberar í myrkri heimsins, dýrmætari en nokkrir eðalsteinar. Við áttum að kveikja ljós í kringum okkur, vekja bros og gleði, vinsemd og hamingju.
Þegar við vorum skírð gátum við líka borið birtu. Já, það var oft eins og ljós himinsins ljómaði í einlægu og hreinu barnsandlitinu. Hvers vegna varð síðar svo dimmt í kringum margan manninn? Hví dofnaði birtan í barnsaugunum? Af hverju svo mörg meiðandi orð, óvild, hatur, og öfund? Barnið villtist burt frá Jesús.
Okkur er eins háttað eins og demöntunum. Við getum því aðeins lýst í myrkri að við höfum fyrst verið í birtu. Ekkert okkar hefur ljós í sjálfu sér. Við erum eins og tunglið sem fær ljós sitt frá sólinni. Við erum eins og daggardropinn sem getur lýst og glitrað þegar sólin skín á hann.
Jesú er ljós lífsins. Hann er uppspretta ljóssins, hann einn. En hann gefur af ljósi sínu, öllum þeim er fylgja honum. Þeir öðlast brot af hugarfari og hjartalagi hans, af heilögum anda hans.
Langar þig ekki til að eiga ljós lífsins?
"Nú talaði Jesú aftur til þeirra og sagði: "Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins" "(Jóh. 8,12).
Þitt blessaða ljós, sem lýsir mér,
til ljóssins iðju kallar hér.
Æ, lát mig allt í ljósi vinna,
í ljósi sannleiks orða þinna,
í ljósi þínu ljósið sjá
og ljóssins barna hnossi ná. (Páll Jónsson) Góða helgi
Máttarorð bls 61.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook