19.4.2007 | 00:10
Gleðilegt sumar ágætu bloggarar!
Árið 1921 er talið að sumardagurinn fyrsti hafi gert opinbera innreið sína í Reykjavík þegar fyrsti barnadagurinn var haldinn með fulltingi margra þekktra kvenna og karla, sem fluttu fyrirlestra, ræður, kvæðalestur, leiksýningu, hljómsveit, leikfimi, og listdans.Barnadagurinn átti sér samt aðdraganda. Bandalag kvenna í Reykjavík hafði áður unnið að stofnun heimilis fyrir munaðarlaus börn. Nefnd var sett á laggirnar sem kom á fjársöfnun á Þorláksmessu fyrir jól 1920.
Um veturinn ákvað nefndin að sumardagurinn fyrsti skyldi helgaður börnum. Árið 1924 var Barnavinafélagið Sumargjöf stofnað til að koma á fót barnheimilium og hafði síðan veg og vanda af að halda sumardaginn fyrsta hátíðalegan, sem barnadag í hálfa öld með skrúðgöngu barna og foreldra. Eftir það tóku aðrir við einkum skátar og fóstrur. Samt má telja að Sumargjöf sé eins konar handhafi sumardagsins fyrsta í Reykjavík. Þegar beiðni kemur um að halda útihátíð vísa yfirvöld henni til Sumargjafar.
Sumardagurinn fyrsti á sér langa sögu í menningu okkar. Heiti dagsins er bókfest í Grágás og Jónsbók. Er þar ýmist ritaður sumardagurinn fyrsti eða sumardagur. Í Skáldskaparmálum Snorra Eddu segir að vor sé frá jafndægri til fardaga en sumar þaðan til jafndægri á hausti.Þar hefur fyrsti mánuður sumars verið kallaður Gauksmánuður og sáðtíð. Sumargjafir hafa tíðkast í ýmsum myndum. Aðallega í Vesmannaeyjum gáfu sjómenn konum sínum sumardagsfisk, sem var hluti af róðri á sumardaginn fyrsta sem konan mátti ráðstafa að eigin vild.
Í bændasamfélaginu var dagurinn haldinn hátiðutlegur með betri mat, fólk fór í spariföt og aðeins unnin nauðsynlegustu verk. Til málamynda var stundum fyrsta vorverkið hafið en þá átti sumarið að vera athafnasamt
Sumardagurinn fyrsti er löggildur fánadagur.
Ekki að undra þótt horft sé til sumars í okkar kalda landi með því að gera sér dagamun með sól í hjarta þótt vindar blási kalt.
Þá er það talinn gamall siður að óska hver öðrum gleðilegs sumars. Elsta persónlega sumarkveðjan er frá Siguðri Péturssyni sýslumanni (1817) til Sigurðar Thorgrímsen landfógeta. Þá mun sumardagurinn fyrsti hafa verið tileinkaðuu yngismeyjum; kallaður yngismeyjadagur, jómfrúdagur eða yngisstúlkudagu.
Undirrituð á góðar minningar frá barnaæsku um sumardaginn fyrsta. Þá fékk hún kakó og sætabrauð í rúmið á yngismeyjadaginn þ.e. sumardaginn fyrsta.
Megi kærleikur Krists og sumarsólin verma okkur í bloggheimum og vindar blása úr öllum áttum til að gera gott samfélag fyrir alla.
Gleðilegt sumar!
(Samatektin er út ritinu Saga Dagann eftir Árna Björnsson)
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:20 | Facebook