24.11.2007 | 21:29
Biblía 21. aldar: Bæn Manasse 9-15
Manasse konungur stuðlaði að hjáguðadýrkun í ríki sínu, missti völdin og var fluttur í útlegð til Babýlonar. Bænin er lögð í munn Manasse konungs. Fyrsti hluti bænarinnar fjallar um sköpunarverkið og miskunn við synduga menn en lýkur á lofgjörð til Guðs.
9 Syndir mínar eru fleiri en sandkorn á sjávarströnd.
Brot mín gegn lögmálinu, Drottinn, verða ekki talin,
þau eru óteljandi.
Ég er ekki þess verður að hefja upp augu
og horfa til himins
sakir alls ranglætis míns.
10 Ég er þjakaður af þungum járnfjötrum
svo að ég má eigi höfuð hefja sakir synda minna.
Ekkert léttir þeim af mér
því að ég egndi þig til reiði
er ég gerði það sem illt er í augum þínum.
Ég reisti viðurstyggileg skurðgoð
og fjölgaði þeim stórum.
11 Nú beygi ég kné hjartans
og bið þig að auðsýna mér miskunn þína.
12 Ég hef syndgað, Drottinn, syndgað
og viðurkenni það sem ég hef af mér brotið.
13 Ég ákalla og bið þig:
fyrirgef mér, Drottinn, fyrirgef,
lát mig eigi glatast vegna afbrota minna.
Minnstu ekki synda minna
og ver mér eigi að eilífu reiður.
Dæm mig ekki niður í undirdjúp jarðar
því að þú, Guð, ert Guð þeirra sem iðrast.
14 Þá munt þú sýna á mér alla gæsku þína
er þú bjargar mér af mikilli miskunn
þótt ég sé óverðugur.
15 Ég mun sífellt lofa þig svo lengi sem ég lifi,
allir herskarar himna syngja þér lof,
þín er dýrðin að eilífu. Amen. Góða helgi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook