Davíð Stefánsson frá Fagraskógi: Maríubæn

 

María Guðsmóðir hefur á öllum tímum orðið tilefni skáldskapar. Davíð Stefánsson frá Fagraskógi orti fagurlega kvæðið Maríubæn þar sem  hann dregur fram mynd Maríu; um leið og hann viðurkennir brot sín sem hann vill bæta fyrir með iðrun í bæn og tilbeiðslu eins og hann segir sjálfur: “Hreinsa mig í helgum lindum/ af hatri og syndum.”

 

Kvæðið Maríubæn verður um leið boðskapur til  hins ófullkoman og synduga mannkyns sem í bæn og tilbeiðslu  biður um frið og bræðralag á jörðu meðan það bíður Frelsarans Jesú Krists.

  

 

MARÍUBÆN

 

I

 

Til þín særðar sálir flýja,

sancta María.

Þig elska og dýrka allar þjóðir,

eilífa móðir.

Ég sé þig koma í hvítum feldi

með kórónu úr eldi

og breiða faðminn milda mjúka

móti þeim sjúka.

Að fótum þér ég fell með lotning

friðarins drottning.

 

II

 

Ég hef öll þín boðorð brotið,-

bölsöngva notið,

öllum þínum gjöfum glatað,

guðsþjóna hatað,

samviskuna svæft og falið,

syndarann alið.

  

III

 

Til þín særðar sálir flýja,

sancta María.

Hreinsa þú mitt hjarta móðir,

við heilagar glóðir.

Hreinsa mig í helgum lindum

af hatri og syndum.

Gef mér styrk og von og vilja

og vit til að skilja.

Lát mig fagna alltaf yfir

öllu, sem lifir,

og alltaf nálgast eldinn bjarta

með auðmjúku hjarta,

kveljast með þeim köldu og þjáðu,

kyssa þá smáðu.

Gef mér ást til alls hins góða,

til allra þjóða.

Gef mér sól og söngva nýja,

sancta María.

 (Davíð Stefánsson: Svartar Fjaðrir, bls. 195)

 

Samkvæmt kaþólsku kirkjunni er “María, móðir Krists, móðir kirkjunnar.”  Undirrituð fann samhljóm í kvæði Davíðs (Maríubæn) og hvernig kaþólska kirkjan lítur til Maríu. Undirrituð tók eftirfarandi úr Trúfræðsluriti Kaþólsku Kirkjunnar frá  heimasíðu hennar á internetinu og leyfir sér að birta það til íhugunar á Aðventunni með kvæði Davíðs í huga:

III. MARÍA - ÍKON KIRKJUNNAR VIÐ HEIMSSLIT

972. (733, 829, 2853) Eftir að hafa fjallað um kirkjuna, uppruna hennar, erindi og hlutskipti, er engin önnur betri leið að ljúka þessu en að líta til Maríu. Í henni íhugum við hvað kirkjan er nú þegar í leyndardómi sínum á sinni eigin “pílagrímsför trúarinnar” og hvað hún muni verða í föðurlandinu að lokinni vegferð sinni. Þar bíður hún sem kirkjan vegsamar sem móðir Drottins síns og sín eigin móðir “í dýrð hinnar alheilögu og óskiptanlegu þrenningu”, “í samfélagi allra heilagra”. [132] Í millitíðinni er móðir Jesú, dýrleg gerð á líkama og sál, mynd og upphaf kirkjunnar eins og hún mun fullkomin verða í hinum komandi heimi. Sömuleiðis skín hún sem sól hér á jörðu þar til sá dagur rennur upp að Drottinn kemur, tákn um örugga von og huggun Guðs lýðs sem er pílagrímur. [133]  
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband