10.5.2008 | 09:28
Strandsiglingar - hagkvæmur kostur?
Ritstjóri 24stunda finnur hugmynd Ármanns Kr. Ólafssonar allt til foráttu um að hagkvæmni strandflutninga verði könnuð. Rök ritstjórans eru hvernig einkaframtak stórfyrirtækja úti í heimi hefur flutt vörur sínar sjóleiðis án styrkja með góðum hagnaði. Tæplega getur verið um sambærilegan rekstur að ræða og í strjálbýlu strandríki þar sem grundvöllur á rekstri stórfyrirtækja er ekki til staðar.
Þótt gjaldtaka á vörubílum væri hækkuð eru ekki líkur til að flutningar út á land verði ódýrari eða geti haldið upp vegaframkvæmdum til þess er umfangið ekki nógu stórt. Tillaga Ármanns á fullan rétt á sér til að athugunar á hagkvæmni sjóflutninga jafnvel með ríkistyrkjum. Þótt íbúar séu fáir úti á landi þá hlýtur að verða að horfa til þess vanda sem olíuhækkun hefur; þótt ekki sé nema á nauðsynjavörum að verðlag sé sambærilegt við Reykjavíkursvæðið.
Ritstjóri 24stunda virðist ekki horfa með þeirri yfirsýn að landið allt sé undir þar sem að öllum líkindum verði ódýrara að hefja strandsiglingar þótt með ríkisstyrkjum væri ef til vill til að byrja með.
Undirritaðri er ekki kunnugt um hvernig rekstur 24stunda er háttað en gerir ráð fyrir að það sé rekið fyrir auglýsingatekjur. En hverjir greiða auglýsingarnar þegar upp er staðið? Eru það ekki þeir sem lesa blaðið - kaupa vöruna og standa því óbeint undir rekstri 24stunda?
Vonandi stendur Ármann Kr. Ólafsson fast á hugmynd sinni um strandflutninga hér á landi; og það verði varanlegur kostur til framtíðar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:35 | Facebook