25.6.2008 | 14:57
Andabringur Jónínu - innflutt matvæli í landbúnaði
Jónína Benediktsdóttir segir frá óförum sínum (Mbl í dag) gegnum tollinn með frosnar andabringur er teknar voru af henni við heimkomu til landsins. Ef til vill er langt gegnið í þessu tilfelli þar sem um frosið kjöt var að ræða. Frásögn Jónínu er aðeins ein hliðin á innflutningi landbúnaðarafurða.
Nýjasta deilan er um hrátt ófrosið innflutt kjöt er átti að fara í gegnum Alþingi en var frestað vegna mikillar andstöðu. Málið snýst einnig um hvort við eigum að reka eigin landbúnað hér á landi til framtíðar. Sýnt hefur verið fram á að hrátt kjöt geti borið smitsjúkdóma í auknum mæli inn í landið. Margrét Guðnadóttir, fyrrverandi prófessor í veirufræði heldur því fram með sterkum rökum að hætta gæti stafað af umræddum innflutningi.
Nú stendur heimsbyggðin frammi fyrir því að ekki eru nægileg matvæli til í náinni framtíð. Það kallar á nýja hugsun um hvort ekki eigi að tryggja fæðuöryggi hér á landi með öflugum landbúnaði sem ekki má þó vera hafinn yfir gagnrýni. Umræðan má ekki vera togsteita um innflutning eða skipulagið á framleiðslunni; þarf að vera í þeim anda að við getum staðið frammi fyrir skorti á matvælum ef við tryggjum ekki okkar eigin framleiðslu. Milliliðakostnað í landbúnaði þarf að kanna og finna hagkvæmari leiðir í þeim iðnaði. Einn liður í þeirri umræðu er að kaupendur geti keypt afurðir beint frá bóndanum í auknari mæli en nú er.
Mikið magn af innfluttum landbúnaðarafurðum á almennum markaði er ekki skynsamlegt í núverandi stöðu bæði hvað varðar smitsjúkdóma; og að innlendur landbúnaður verði ekki þurrkaður út með innflutum vörum sem engin trygging er fyrir að verði ódýrari þegar til lengri tíma er litið. Ef til vill má slaka á með tilfelli eins og Jónína greinir frá og þarfnast það nánari umræðu og hvort hér sé um of strangar aðgerðir að ræða.