27.6.2008 | 17:35
Virkjanir til hagsbóta - fyrir "Fagra Ísland"
Ábyrgð fjölmiðla er mikil þegar viðkvæm mál eins og náttúrvernd eru notuð gegn háhitavirkjunum og vatnsaflsvirkjunum hér á landi; að ekki sé verið að slá ryki í augun á fólki um hvað virkjanir snúast. Björg Eva Erlendsdóttir skrifar forystugrein í 24stundir í dag þar sem hún telur umhverfisráðherra og iðnaðarráðherra hafa svikið Fagra Ísland, stefnu Samfylkingarinnar.
Gott væri fyrir Björgu Evu og hennar kynslóð að íhuga hvers vegna eimmitt hennar kynslóð býr við allsnægtir og góða menntun. Er það ekki vegna virkjunarframkvæmda síðustu aldar og verðmætra fiskimiða? Hér syðra hefur borgarsamfélagið fengið mikinn meiri hluta af þjóðartekjunum en landsbyggðin setið hakanum. Það er eðlilegt að framkvæmdir verði á Húsavík til að fólk þar geti notið sömu lífskjara/menntunar og kynslóð Bjargar Evu þótt það kosti fórnir í náttúrunni.
Þá skrifar Björg Eva um fólkið á Þjórsárbökkum, telur að samúð umhverfisráðherra sé því gagnslítil og segir orðrétt. Sú samúð kemur að litlum notum, þegar grá jökullónin fara að flæða um gróin tún og fagrar byggðir Suðurlands, svo hægt verði að stækka álverið í Straumsvík. Málið er tæplega svona einfalt. Óhjákvæmilegt er að eitthvað land fari undir vatn þegar virkjaðar eru auðlindir framtíðinni til hagsbótar hvort sem það er áliðnaður eða netþjónabú. Auk þess hefur afgerandi meirihluti íbúa við Þjórsá samþykkt þessar aðgerðir við Þjórsá; væntanlega vegna þess að menn skilja þörfina til að byggja upp Fagra Ísland áfram til betri lífskjara. Samkvæmt grein Bjargar Evu má hins vegar fremur skilja að að byggðir Suðurlands séu í meira og minna að fara í kaf.
Umræðan getur ekki snúist um að virkja ekki háhitasvæði eða vatnsaflsvirkjanir; það er undirstaða lífsafkomu komandi kynslóða eins og verið hefur. Kynslóðir 21aldar munu þurfa á þeim að halda til að geta búið í velferðarsamfélagi áfram. Rétt eins og núverandi kynslóð og kynslóðir síðustu aldar nutu framfara og velsældar vegna umræddra auðlinda.
Hins vegar ætti umræðan um friðuð svæði að fara fram jafnfram ákvarðanatöku um frekari virkjanir Þá verða til fleiri svæði líkt og Vatnajökulsþjóðgarðurinn. "Fagra Ísland" framtíðarinnar er að nýta auðlindir landsins en jafnframt vinna að friðun ákveðinna svæða. Um það ætti umræðan fremur að snúast með rökum og sanngirni þjóðinni til hagsbóta en ekki stefnu Samfylkingarinnar í náttúrvernd sem nær eingöngu er á tilfinningalegum nótum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.6.2008 kl. 12:13 | Facebook