16.10.2007 | 09:18
Ábyrg áfengisneysla - áfengi ekki almenn neysluvara.
Þökk sé Mbl. fyrir ábyrga afstöðu í dag um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Sterkar raddir þingmanna er tóku þátt í umræðunni á Alþingi í gær voru einnig með ábyrgum hætti þar sem þeir sýndu fram á hvað samfélagslegt böl væri alvarlegt vegna áfengisdrykkju. Áfengi er vímuefni sem ber að höndla samkvæmt því og á ekki erindi inn í almennar verslanir frekar en lyf sem seld eru í apótekum. Takmarkað aðgengi er t.d. að verkjalyfjum sem eru seld í skömmtum. Ekki heyrist nein óánægja með framangreint fyrirkomulag.
Að selja áfengi í matvöruverslunum við hlið matvara gefur þau skilaboð að vín sé neysluvara sem sjálfsagt er að neyta hvenær sem er. Það eru röng skilaboð út í samfélagið og dregur úr ímynd um skaðsemi áfengis. Rannsóknir erlendis sýna ótvírætt að frjáls óheft sala áfengis eykur áfengisdrykkju. Suður í Evrópu hafa menn áhyggjur af ofneyslu áfengis og eru að reyna fyrirbyggjandi aðgerðir. Umrædd svæði þarna suður frá eru með mikla vínræktun og ódýrt vín. ESB hefur og ætlar að taka á áfengisvandanum með markvissum aðgerðum. Ennþá heyrist lítið um það í fréttum hér á landi.Reynsla Finna við lækkun áfengisskatta olli mikilli aukningu áfengisdrykkju. Eru þeir nú að hverfa frá þeirra stefnu og hyggjast hækka skattana aftur.
Ekki er ofmælt að 10% landsmanna hér á landi eigi við áfengis- og eiturlyfja vanda að ræða. Af vímuefnaneyslu má reikna með að áfengi sé 90% af vímuefnavandanum. Auðvelt dæmi að reikna. Þrjátíu þúsund manns hér á landi eiga við alvarlegan áfengisvanda að stríða. Ekki ofreiknaða að stórfjölskylda hvers og eins sé a.m..k fimm manns. Fimm sinnum 30.000 manns eru þá eitthundrað og fimmtíu þúsund manns sem tengjast vímuefnum og því böli sem þau valda.
Undirrituð tekur undir af öllu hjarta með Morgunblaðinu og þeim þingmönnum sem mæltu móti áfengisfrumvarpinu. Framangreint frumvarp á ekki erindi í gegnum Alþingi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Facebook