17.11.2007 | 08:16
Biblía 21. aldar: Speki Salómons
15Guð gefi mér að koma orðum að innsæi mínu,
að hugsun mín hæfi því sem mér er gefið.
Bæði er hann sá sem leiðir til speki
og leiðbeinir spekingum.
16 Í hendi hans erum vér og orð vor,
allt vort vit og verkleg mennt.
17 Sjálfur gaf hann mér óbrigðula þekkingu á öllu,
að þekkja byggingu heims og orku frumefnanna,
18 upphaf, endi og miðju tíðanna,
breytingu sólargangs og árstíðaskipti,
19 hringrás ársins og stöðu stjarna,
20 lífsháttu dýranna og æði villidýra,
kraft andanna og hugsanir manna,
tegundir jurtanna og undramátt róta.
21 Allt fékk ég að þekkja, bæði það sem hulið er og augljóst.
22 Spekin, sem allt hefur skapað, kenndi mér það.
Eðli spekinnar
Í henni býr andi, hann er vitur og heilagur,
einstakur, margþættur, fíngerður,
kvikur, skýr, flekklaus,
tær, ósæranlegur, góðfús, skarpur,
23 ómótstæðilegur, góðgjarn, ástúðlegur mönnum,
staðfastur, æðrulaus, öruggur,
almáttugur, alsjáandi
og streymir um alla anda,
hina vitrustu, hreinustu og fíngerðustu.
24 Spekin er kvikari en allt sem hrærist.
Hún er hrein og smýgur inn í allt og nær til alls.
25 Hún er andblær almáttugs Guðs
og streymir tær frá dýrð hins alvalda.
Þess vegna kemst ekkert óhreint að henni.
26 Hún er endurskin hins eilífa ljóss,
nákvæm eftirmynd verka Guðs
og ímynd gæsku hans.
27 Ein er hún en megnar allt,
er sjálfri sér söm en endurnýjar allt.
Hún býr sér stað í helgum sálum frá kyni til kyns
og mótar spámenn og vini Guðs.
28 Enda elskar Guð aðeins þann sem er samvistum við spekina.
29 Hún er dýrlegri en sólin og ber af hverri stjörnu.
Skin hennar er bjartara en dagsbirtan.
30 Því að nóttin tekur við af dagsbirtunni
en við spekinni má hið illa sín einskis.
Góða helgi
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:01 | Facebook