23.6.2008 | 14:30
Jónsmessa - alsnaktir undir berum himni
Aðfaranótt Jónsmessu er í nótt, gott að muna eftir að velta sér upp úr Jónsmessudögginni alsnakin. Gott er að láta döggina þorna að sjálfu sér á líkamanum. Þá er tækifæri að leita náttúrsteina og töfragrasa er ekki fást annan tíma ársins “ Jónsmessa , messa Jóhannesar skírara er er á morgun. Hún leysti af hólmi forna sólhvarfahátíð í Róm og virðist einnig á Norðurlöndum hafa komið í stað slíkrar veislu. Suður í Evrópu var Jónsmessa talin miðsumarnótt og var mikil alþýðuhátíð með brennum, dansi og svo kölluðum nornamessum. Hérlendis var hátíðahald mun minna en í nágrannlöndunum. Kann að hafa ráðið nokkru að þjóðveldisöld lenti dagurinn á miðjum alþingisþingtímanum. Á fyrri hluta 20.aldar byrjuðu nokkur félög að halda útihátíð á Jónsmessu en nánd við þjóðhátíðardaginn 17.júní hefur dregið úr slíku tilstandi eftir 1944. Jónsmessunótt, aðfaranótt 24.júní, er þó ein af fjórum mögnuðustu nóttum ársins, og fylgir ýmis þjóðatrú, meðal annars að kýr tali og selir fari úr hömum sínum. Þessa nótt á einnig að vera gott að leita töfragrasa og náttúrusteina, og Jónsmessudöggin þykir heilnæm til lækninga ef menn velta sér í henni alsberir.”
Lyfjagras kallaðist líka Jónsmessugras. Af öðrum má nefna hornblöðku við kvefi, maríustakk við graftarkýlum, korndún af víði á sár milli tánna, brennisóley við húðkvillum og fjanda fælu.
Mjaðurt má með góðu lagi nýta til að vita hver hefur stolið frá manni. Segir svo í Þjóðsögum Jóns Árnasonar:
“Tak mjaðurt sjálfa Jónsmessunótt um miðnættið, lát í laug (þ.e munnlaug) við hreint vatn, legg urtina í vatnið. fljóti hún, þá er það kvenmaður; sökkvi hún, þá er það drengur. Skugginn sýnir þér hver maðurinn er. Það við skal hafa þennan formála: “ Þjófur ég stefni þér heim aftur með þennan stuld sem þú stalst frá mér með svo sterkri stefnu sem Guð sjálfur stefndi djöflinum í paradís í helvíti.”
Heimild: SAGA DAGANNA ( 2000 3. útg.), Árni Björnsson bls. 160 og 168.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:43 | Facebook