29.6.2008 | 22:58
Frábær fótboltakeppni – Þakkir til RÚV
Þá er þessari skemmtilegu Evrópukeppni landsliða lokið með verðskulduðum sigri Spánverja eftir frábæra leiki alla keppnina. Þeir höfðu allt til að bera sem mér finnst eiga að prýða framúrskarandi íþróttamenn. Voru ein heild en jafnframt frábærir sóknarmenn. Eins og þeir læsu hvers annars hugsanir; alltaf reiðubúnir að fórna sér fyrir leikinn og leikgleðina. Síðast en ekki síst var markmaðurinn ef til vill sá besti. Hef ekki tæknilegt vit á fótbolta en finnst gaman að horfa á keppni eins og þessa sem má vel líta á sem þverskurð af mannlífinu sjálfu þar sem skiptast á skin og skúrir.
Þjóðverjar voru auðvitað frábærir líka en vantaði leikgleðina og þennan leikandi takt sem Spánverjar höfðu allan leikinn. Áttu ekkert svar þegar skyndisóknir þeirra urðu aldrei neinn veruleiki, sem mér finnst vera þeirra aðferð, til að vinna leiki fremur en samspil til að skora mörk
Fyrsta skipti sem ég horfði á keppni á heimsmælikvarða var fyrir tólf árum. Fótbrotnaði og fór að horfa í leiðindum. Síðan þá hef ég ekki sleppt úr svona keppni og lært að meta fótbolta félagslega mikilvægan í samfélaginu. Það sem hefur breyst síðan fyrir tólf árum er hvað fótboltinn er orðinn meira agaður og brot ekki gróf, verða oftast í hita leiksins án ásetnings.
Þá á RÚV miklar þakkir fyrir sýninguna og þættina fyrir hverja keppni er var í alla staði til fyrirmyndar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.6.2008 kl. 06:48 | Facebook