24.10.2009 | 04:01
Börn njóti siðferðisréttar í samfélaginu
Eftirfarandi blaðagrein birtist í Mbl 22. okt og samin vegna máls sr. Gunnars Björnssonar og tilfærslu Biskups þjóðkirkjunnar að færa sr Gunnar til í starfi innan kirkjunnar:
Eins og vænta mátti hefur úrskurður Biskups þjóðkirkjunnar vakið harðar umræður, að færa séra Gunnar Björnsson, sóknarprest á Selfossi til í starfi samkvæmt starfsreglum kirkjunnar. Gunnar kærði ásökun um kynferðisáreiti gegn fermingarbörnum sínum til Héraðsdóms/Hæstaréttar en var sýknaður. Samt sem áður leiddi rannsókn málsins í ljós, að hann strauk og kyssti fermingarbörn/unglingsstúlkur undir lögaldri;um það snýst málið.
Með fyrrnefndri framkomu særði hann siðferðiskennd þessara barna er getur ekki flokkast undir sálusorgun. Frekar vanvirðingu við börn á viðkvæmum aldri er getur skilið eftir sig ör í hugum þeirra um langa framtíð; jafnvel ævilangt ef ekki er leitað hjálpar strax þegar brotin eiga sér stað. Er ekki mál til komið að taka börn trúanleg í slíkum aðstæðum?
Rétt er að hyggja að fortíðinni um mál sem hafa komið upp hjá kirkjunni og í samfélaginu þar sem fullorðnar konur/karlar hafa greint frá sárri reynslu sinni vegna kynferðislegrar áreitni á barnsaldri, að ekki sé minnst á Breiðuvíkurdrengina eða stúlkurnar á meðferðarheimilinu Bjargi Seltjarnarnesi.
Með allri virðingu fyrir Hæstarétti þá virðist það tæpast á hans valdi að dæma hvað er siðferðisbrot nema þegar um svo gróft líkamlegt brot er að ræða, að sannanlegt er áþreifanlegum hætti.
Dómsvaldið stendur ef til vill á svo gömlum merg að það nái tæpast yfir víðfeðman rétt í nútímasamfélagi þar sem réttur barna og kvenna er mun meiri en áður var
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:07 | Facebook