25.10.2009 | 00:19
''Stabat mater dolorosa''
Enginn veit hvaðan þessi sálmur kemur, enginn veit hver hefur sungið hann fyrst. Ef til vill bróðir Jacopone de Todi úr reglu heilags Frans frá Assisí eða heilagur Bónaventúra, kardínáli og kirkjufræðari eða Innocens III. páfi, allra páfa áhrifamestur á miðöldum? Enginn veit með vissu hver orti kvæðið "Stabat mater dolorosa" sem lýsir harmkvælum Maríu meyjar. En eitt er víst að þetta kvæði hljómaði fyrst á 13. öld og hefur verið sungið síðan í aldanna rás og mun vera sungið eins lengi og þeir menn lifa á þessari jörð sem hugleiða harmkvæli Maríu meyjar með lotningu. Má vera að það sé gott að skáldið er óþekktur maður af því að manni finnst að hvorki munkur, kardínáli né páfi hafi ort þetta kvæði heldur stigi það beint úr harmþrungnu mannshjarta sem leitar huggunar með því að íhuga þjáningar Maríu meyjar, "mater dolorosa".
Mörg tónskáld hafa fært þetta kvæði í búning ógleymanlegrar tónlistar. "Stabat mater" var síðasta verk Palestrina. Jósef Haydn gleymdi sorg sinni með því að hugleiða þetta kvæði. Það hljómaði að nýju í verkum Rossinis og Dvoraks. En samt finnst manni að Stabat mater hafi fengið sína bestu túlkun í gregorssöng. Hér er ekkert annað að finna en grátbeiðni harmþrunginnar mannssálar sem leita hælis hjá móður okkar allra.
Hér fylgir kvæði eða sekventía, svokölluð "Stabat mater dolorosa" í íslenskri þýðingu
(sjá messubók frá 1957).
Stóð að krossi sefa sárum
sorgum bitin, drifin tárum,
móðir þar sem mögur hékk;
og um hennar hyggju skarða,
harmi lostna, böli marða,
eggjabrandur bitur gekk.
Ó, hve hrelld og hrygg til dauða
himna drottins var hin auða
einkasonar móðir mær,
sem réð fanga sorg og stranga
sút, er hanga kvöld við langa
sinn leit mæra soninn skær.
Hverir gráta menn ei mundu
móður Krists á þeirri stundu
ef að horfðu hrelling á?
Hver svo hjartað herða mætti
hans að eigi lundu grætti
góðrar móður sorg að sjá?
Fyrir þjóðar sinnar syndir
sá hún Jesú dreyra lindir,
kross á gálga hengdan hann;
varð að líta sinn hinn sæta
soninn kvölum einan mæta,
meðan lífið láta vann.
Eia móðir, mér að finna
meginsorga byrði þinna
kenndu, lindin kærleikans!
Svo mér brenni hugur og hjarta
helst að elska son þinn bjarta
að ég feti fótspor hans.
Heilög móðir, mér, hin besta,
mundu kvöl í hjarta festa
Kristí, sem á krossi dó!
Sonar þíns er sár í hildi
sjálfur fyrir mig ganga vildi,
veit mér hlut í þjáning þó!
Lát mig gráta með þér, mæta
míns og Jesú krossins gæta,
meðan fjör í æðum er:
því að engin mér skal mærri
mæðubót, né huggun stærri,
en að tárast þar með þér.
Allra skírust mærin meyja
mig ei láttu einan þreyja,
en þér harma æ við hlið;
lát mig kenna Drottins dauða,
dýr, og finna hlutann nauða,
hans og bölið berjast við.
Lát mig hörðum höggum særa,
hans að krossi glaðan færa,
fyrir sakir sonar þín!
Vek mér eld og ást í huga,
að mér megi traust þitt duga
þegar dómadagur skín!
Lát mig kvölum krossinn verja,
Kristí dauða fyrir mig erja,
að ég njóti náðar hans!
Svo þegar lík mitt liggur í moldu
ljóss mín hljóti önd á foldu
hæsta gleði himna ranns!
Amen.
Afritað af síðu Kaþólsku kirkjunnar, góða helgi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook