Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Kristileg siðfræði/siðmennt í skólum

Biskup Íslands kallaði eftir umræðu  um hvort kristileg siðfræði skuli vera markviss stefna í fræðslu/uppeldi skólanna og er það vel. Umræðan hefur verið nokkuð á skjön við sjálft málefnið  kristilega siðfræði. Tæplega fólgin i heimsókn prests í skólana/leikskólana er kemur annað slagið eins og “góður frændi/frænka" í heimsókn. Kristileg siðfræði með umburðarlyndi og kærleika að leiðaljósi er að reyna að feta fótspor Krists sem sennilega er móttækilegra af börnum en fullorðnum, góður grunnur fyrir siðgæðisþroska fullorðinsáranna. En hvernig á slík fræðsla að fara fram er sú spurning sem þarf að ræða ekki síst innan kirkjunnar annars vegar og hins vegar skólanna/leikskólanna?  

Er það æskilegt að prestar í fullu starfi  hafi starfið með höndum  eða eiga starfsmenn að vera sérmenntaðir  alfarið í starfi skólanna (í tengslum við kirkjuna)? Undirrituð telur að siðfræðimenntaðir starfsmenn innan skólanna ættu auk guðfræðimenntunar/trúfræði, að hafa kennslufræði í menntun sinni. Slíkir starfsmenn væru  ekki í starfi innan safnaða heldur alfarið innan skólanna þar sem fræðslan byggðist faglega, á kristnum gildum og almennri siðfræði, sem gætu vel farið vel saman enda af sömu rót. 

 

Að kenna kristilega siðfræði af prestum þjókirkjunnar getur vakið tortryggni um trúboð sem er alls ekki æskilegt innann uppeldisstofnana samfélagsins þar sem börn af öðrum trúarhópum eru til staðar. Umræðan undanfarið í fjölmiðlum þar sem prestur og fulltrúi Siðmenntar sitja gagnvart hvor öðrum á óásættanlegum meiði er ekki sá kristilegi eða siðfræðilegi grunnur sem þarf að vera til staðar ef kristin síðfræði með kærleika, mannúð Jesú Krists að leiðarljósi er rædd.  Heldur ættu framgreindir aðilar að koma sér saman um með hvaða hætti kristileg siðfræði/almenn siðfræði yrði kennd innan skóla/uppeldisstofnana.


Kárahnjúkavirkjun - virkjun v. Húsavík framtíðarsýn til framfara

HappyHið glæsilega mannvirki við Kárahnjúka var ræst formlega nýlega án þess að “elítan” í Reykjavík gæti verið viðstödd sem var góð ákvörðun  “veðurguðanna”. Fór vel á því að mannvirkið var ræst af heimamönnum og hefði alveg mátt sleppa “showinu” fyrir sunnan. Hið glæsilegasta  mannvirki Íslandssöguna er raunveruleiki, gefur  Austurlandi enn meira kraftmikið fjölbreytt atvinnulíf, þegar fram líða stundir. Verður ómetanleg búbót í þjóðartekjur þar sem Reykjavíkursvæðið fær eins og áður stærsta hlutann af kökunni. 

Það voru fiskimiðin við landið sem fyrst og fremst byggðu upp menntun, velmegun, og tækniþekkingu sem nú munu byggja upp þjóðfélag framtíðarinnar er byggist á raforku ásamt útrás í tækniþekkingu vegna orku úr iðrum jarðar. Með virkjun v/Kárahnjúka og ef af verður við Húsavík mun það verða stærstu framförin í byggðaþróun úti á landi. Kemur í staðin fyrir uppbyggingu Samvinnuhreyfingarinnar sem átti stærstan þátt í þróun byggða í sveitum landsins. Því miður fór langstærsti hluti arðs að fiskveiðum til Reykjavíkur, sveitirnar gáfu eftir og fólkið flyktist mest til  höfuðborgarsvæðisins og stendur enn. 

Við þjóð hér á norðurslóðum verðum að byggja lífsafkomu okkar á raforku frá fallvötnum okkar í framtíðinni. Það kostar fórnir á fallegri náttúru en er óhjákvæmilegt þótt það sé öllum sárt sem fegurð unna.  Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður  sagði í Silfri Egils í dag, að Kárahjnúkavirkjun væri of djúp spor í náttúrunni. Engin rök fylgdu  eða hvað hún ætlaði að koma með í staðinn handa komandi kynslóðum til þess þær megi byggja þetta kalda og fagra land; vera ein þjóð í landinu ekki yfirþyrmandi borgríki eins og nú er.  Ef ekki verður haldið áfram að nýta raforkuna þarf að draga saman á mörgum sviðum. Ekki verður lengra gegnið á landsbyggðinni henni hefur þegar verið fórnað fyrir borgríkið á Suðvesturhorninu.  Hvernig væri að leggja niður Samvinnuháskólann til að draga úr kostnaði menntamála. Samt væri hægt að halda uppi ágætu menntunarstigi á háskólastigi og spara í leiðinni. Eða sameina hann að mestu leyti öðrum háskólum í Reykjavík og setja um leið háskólasetur í Egilsstaðabæ og á Akureyri. Ef virkjun rís við Húsavik þá er kominn grundvöllur fyrir hærra menntunarstigi þar.  

Núverandi  ríkistjórn gekk út fyrir ystu mörk með skerðingu þorskkvótans alveg óháð því hvernig atvinnuástand var í sjávarþorpum landsins. Þar fóru minnstu sjávarbyggðirnar verst úti sem aðeins byggðu á litlum útgerðum. Svo var talað um mótvægisaðgerðir sem telja verður innantóm orð. Eitt dæmi skal nefnt.  Byggðastofnun fékk milljarð en skuldaði það fyrir, annað er ekki nefnandi nema þá “kr. 200 þús á fjölskyldu”, til að flytja burtu frá eignum sínum á höfuðborgarsvæðið þar sem húsnæðið er svo dýrt að enginn venjulegur verkamaður getur tekið á leigu hvað þá keypt.

 Að lokum óskar undirrituð heimabyggð  sinni (Austurlandi öllu) til hamingju með glæsilegt mannvirki þar sem íslenskir vísindamenn eiga stóran þátt bæði með margra ára rannsóknum á Fljótsdalsheiði, beinni aðkomu við hönnun og byggingu Kárahnjúavirkjunar, með Landsvirkjun í fararbroddi. Raforkumannvirki framtíðarinnar eru sú framtíð sem allir verða að horfast í augu við ef hér á að byggja áframhaldandi velmegunarsamfélag sem hefur góð lífskjör vítt og breitt um landið. 

Biblía 21. aldar: Lofsöngur Maríu

Höfundar guðspjallsins er læknirinn Lúkas.  Þar er Jesús álitinn frelsari Gyðingaþjóðarinnar og alls heimsins.  Engill/sendiboði  birtist Maríu Guðsmóður og tjáði henni að hún myndir fæða barn og skyldi hún láta hann heita Jesúm. María trúði sendiboðanum, varð mjög glöð og mælti fram lofsöng sinn:

Lofsöngur Maríu Lúk 1.46-1.55

 46Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin

47og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.

48Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir
 mig sæla segja.

49Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.

50Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.

51Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta
 hefur hann tvístrað.

52Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,

53hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér
fara.

54Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,

55eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans,

eilíflega.

Góða helgiHappy
 


Breiðuvíkurdrengur – hér og nú

Það sjónarmið kom fram í morgunútvarpi RUV  í gærmorgun að Breiðuvíkurheimilið hefði verið toppurinn á ísjakanum í meðferð barna í Reykjavík langt fram á tuttugustu öld er áttu móður og/eða föður sem ekki höfðu tök á frambærilegri umönnun.  Eftir að hafa lesið bókina Breiðuvíkurdrengur kemur upp í hugann sú óþægilega tilfinning að enn  eimi eftir  birtingarmynd Breiðuvíkurdrengs í velmegunarsamfélagi nútímans. Ef til vill birtist umrædd mynd í umræðunni um að koma burt kristnum gildum úr skólum landsins. Í staðinn á að koma mælikvarði hins siðmenntaða/upplýsta/menntaða  manns er kann svör við öllu. Allt á að fara fram með lögmálskenndri óskeikulli forskrift þar sem ekkert getur farið úrskeiðs hjá hinum fullkomna umrædda karli/konu.   

Við erum kölluð af fagnaðarerindi Jesú Krists til að brúa bil milli manna með fyrirgefningu er felur í sér kærleika og umburðarlyndi sem á við bæði um kirkju og skóla þar sem allir eru jafn dýrmætir í augum Guðs.  Við sem teljum okkur kristin erum kölluð til að mótmæla hvers konar valdamyndum í samfélaginu  þar sem réttur hins smæsta eða þeirra sem minna mega sín er fyrir borð borin. Guð er ekki aðeins í “ég-þú” sambandi heldur  vekja tengslin “okkar,”  okkur til til kærleika og réttlætis með orði sínu áfram í forminu “við”,  er umvefur okkur til endimarka heimsins. “Við” er þá umlykjandi faðmur Guðs, hlýr og kærleiksríkur þar sem frjór vöxtur og skapandi hugsun verður til í kærleika. Þannig getur samfélag með kærleika Krists að leiðarljósi bæði hvatt  og sett börnum/unglingum sínum eðlileg takmörk í uppeldi kirkju og skóla. Kærleikur og ábyrgð verður samfélagslegur grunnur.   

 Elie Wieasel (1978) skrifaði frásagnir um Helför nasista : “Til að vera teknir trúanlegir urðu sögumenn að segja hálfan sannleikann”. Enginn gat trúðað hinum raunverulega hryllingi sem átti sér stað í samfélagi nasista þar sem köld skynsemishyggja og vísindahyggja átti að leysa vandamáls heimsins með þúsund ára ríki Hitlers. Sama sjónarmiðið kemur fram í bókinni Breiðuvíkurdrengur þegar Páll reynir að segja frá hörmungum sínum. En eru svo fjarri því sem hægt er að ímynda sér um þá  hraksmánarlegu meðferð er átti sér stað í Breiðuvík.   Dietric Bonhoffer, þýskur prófessor er var myrtur/pyntaður í fangabúðum nasista  lét eftir sig frásagnir úr fangabúðunum leggur áherslu á að enga lausn sé að finna í syndugum heimi nema að öðlast einlægan vilja til að feta fótspor Krists. Ennfremur segir hann að til að svo megi verða þurfi að eiga sér stað ferli þar sem bæn um iðrun og breytingu til batnaðar eigi sér stað. Þá telur Bonhoffer að við getum öðlast hina dýrmætu náð Guðs; til að  hafa áhrif á uppbyggingu samfélags með kristin gildi/mannúð að leiðarljósi. Halo

 

 Allir ættu að lesa bókina Breiðuvíkurdrengur þar sem mannvonska, líkamspyntingar og kynferðislegt ofbeldi gegn börnum var daglegt brauð þessara hraksmáðu drengja samfélagsins. En átti þó að verða hið fullkoman uppeldi  af “upplýstu menntuðu samfélagi/manni" þar sem mælikvarði mannsins er allt sem þarf. Vonandi tekur nútíma neyslusamfélag, “það besta í heim hér”, mið af kristnum gildum í enn ríkari mæli  í samfélagi framtíðarinnar. Þar sem hver maður er dýrmætur í augum Guðs.

 Tæplega getur  umrædd breyting eingöngu  átt sér stað með tilskipunum að ofan frá menntamálaráðherra og biskupi. Markviss hreinskilin/kærleiksrík umræða um betra velferðasamfélag þarf að fara fram. Þar sem kirkjan ekki síður en hið veraldlega vald þarf að horfa inn  við með gagnrýnu sjónarhorni svo  brotasaga  um Breiðvíkurdrengina fái ekki sífellt nýja birtingarmynd í samfélaginu hér og nú.  

Málfrelsi og – netfrelsi.

 Málfrelsi og netfrelsi er umfjöllun og birting Mbl. í dag. Staksteinar gera að umtalsefni afstöðu VG við frumvarpi annarra flokka um styttingu ræðutíma á Alþingi. VG. eru í miklum minnihluta en réttlætir ekki, að skoðanir þeirra verði ekki ræddar af hinum flokkunum með röklegum umræðum þótt langar verði samkvæmt núverandi þingsköpum. Stytting ræðutíma þingmanna getur bætt þingstörfin ef eftir fylgir umræða sem tekur mið af réttlæti og almannaheill. Þá þarf að fylgja hinum nýju þingsköpum meiri virðing fyrir annarra skoðunum og réttlátum rökum. Það á eftir að koma í ljós hvort sá félagslegi þroski sé nú til staðar í umræðum Alþingis. Að umræður fari fram með sæmd  svo  virðing fyrir Alþingi aukist. Að ekki þrífist hártoganir og útútsnúningar til að drepa mál á dreif eins og oft hefur viljað verða en breytist ekki endilega með nýjum þingsköpum.

Salvör kallar eftirlit með netbirtingu efnis: “Hrylling...myndefnasía ríkislögreglustjóra." Netfrelsi getur ekki byggst á að hægt sé að vaða um netið á skítugum skónum í skrifum/ myndbirtingu um hvað sem er. Málfrelsi/myndbirting á netinu þarf að virða almennar reglur og siðferði, að virðing fyrir einstaklingnum verði  ekki brotin án nokkurrar siðferðilegra marka. Annars er málfrelsi/myndbirting orðin jafnfætis vondri netlögreglu eða á líkum nótum eins og Salvör nefnir:  “... ekki síst í strangtrúarríkum múslima” eða "opna jólapakka" annarra. Við búum í landi þar sem málfrelsi/myndbirting eru nátengd þeirri ábyrgð að virða rétt og skoðanir fólks í samfélaginu. Netið hlýtur að kalla á siðferðilegar og lögbundnar reglur til að þar fái að þróast, í okkar lýðræðislegu hefð og viðmiðunum, málfrelsi samfara ábyrgð þeirra sem setja þar fram skoðanir í mynd og máli.


Kynlaust jafnrétti - fyrir konur?

Nú gengur jafnréttisumræðan eins og logi yfir akur og felst aðallega í því að breyta karlkyns nafnorðum í kvenkyns eftir því hvort kona eða karl situr í viðkomandi starfi eða embætti. Erfitt að skilja af hverju ráðherra má ekki vera starfsheiti fyrir bæði kyn? Hvar á þessi umræða að enda? Hvað kemur í staðinn fyrir Forseti Íslands, lögfræðing, prest eða lækni. Er það ekki fullboðlegt fyrir konu að vera í starfi forseta þótt orðið hafi karlkyns málfræðilega íslenska merkingu. Ráðherra eða forseti gefur embættinu sína ímynd eftir því hvernig viðkomandi þyki standa sig eða er umdeild/ur hvort sem það er karl eða kona. Hlýtur að vera mergurinn málsins en ekki málfræðilegur skilningur? Ráðherra fær óbeint kvenkynsmerkingu í hugum fólks um leið og kona gegnir embættinu. Erum við konur virkilega hræddar um að standa ekki undir nafninu ráðherra, prestur eða biskup?   

 

Bleikt og blátt fyrir nýfædd börn á sjúkrahúsi er enn illskiljanlegri umræða. Er það ekki betra öryggisins vegna að kynin séu aðgreind með litum? Ekki verður séð í fljótu bragði hvort kynið er svo litagreining í fötum styrkir það öryggi um að öll börn lendi hjá réttum foreldrum. Hvaða litir sem eru hljóta að sýna hvort barnið er stúlka eða drengur.Að framansögðu getur þessi umræða jafnvel snúist upp í andhverfu sína sem þó er ekki  meiningin. Hvað  næst, verður almenningur að ganga í fatnaði sem felur öll merki um hvort viðkomandi er kona eða karl?W00t


Biblían boðskapur fyrir alla

Útgáfa Biblíunnar hefur vakið verðskuldaða athygli þótt sitt sýnist hverjum um þýðingu og orðalag. Hins vegar finnst undirritaðri auglýsingar JPV- útgáfunnar um Biblíuna óviðeigandi þar sem þekktir einstaklingar eru notaðir sem “idealtýpur” við lestur Bókar Bókarinnar. Biblían er fyrst og fremst trúarrit kristinnar manna þótt hún hafi í gegnum tíðina haft áhrif á skáldskap, tónlist og bókmenntir.

Kristið fólk hefur á öllum tímum  lesið Biblíuna af trúarlegum ástæðum sér til huggunar og þroska. Biblían stendur ein og sér fyrir boðskap sinum. Þar er einungis Jesús Kristur sjálfur ímynd trúar, vonar og kærleika til allra manna.

Að gera Biblíuna að ímynd skálda eða leikara o.s.frv. er óviðeigandi auglýsing.FootinMouth


Biblía 21. aldar: Bæn Manasse 9-15

Manasse konungur stuðlaði að hjáguðadýrkun í ríki sínu, missti völdin og var fluttur í útlegð til Babýlonar. Bænin er lögð í munn Manasse konungs. Fyrsti hluti bænarinnar fjallar um sköpunarverkið og miskunn við synduga menn en lýkur á lofgjörð til Guðs.

 

9 Syndir mínar eru fleiri en sandkorn á sjávarströnd.
Brot mín gegn lögmálinu, Drottinn, verða ekki talin,
þau eru óteljandi.
Ég er ekki þess verður að hefja upp augu
og horfa til himins
sakir alls ranglætis míns.
10 Ég er þjakaður af þungum járnfjötrum
svo að ég má eigi höfuð hefja sakir synda minna.
Ekkert léttir þeim af mér
því að ég egndi þig til reiði
er ég gerði það sem illt er í augum þínum.
Ég reisti viðurstyggileg skurðgoð
og fjölgaði þeim stórum.
11 Nú beygi ég kné hjartans
og bið þig að auðsýna mér miskunn þína.
12 Ég hef syndgað, Drottinn, syndgað
og viðurkenni það sem ég hef af mér brotið.
13 Ég ákalla og bið þig:
fyrirgef mér, Drottinn, fyrirgef,
lát mig eigi glatast vegna afbrota minna.
Minnstu ekki synda minna
og ver mér eigi að eilífu reiður.
Dæm mig ekki niður í undirdjúp jarðar
því að þú, Guð, ert Guð þeirra sem iðrast.
14 Þá munt þú sýna á mér alla gæsku þína
er þú bjargar mér af mikilli miskunn
þótt ég sé óverðugur.
15 Ég mun sífellt lofa þig svo lengi sem ég lifi,
allir herskarar himna syngja þér lof,
þín er dýrðin að eilífu. Amen.
 Góða helgiHappy

 


Svandís á sigurbraut?

  Svandís Svavarsdóttir, borgarfulltrúi  hefur sýnt ótvírætt enn sem komið er að hún er fulltrúi hagsmuna almennings í málum Orkuveitunnar. Fundurinn um ákvarðanatöku í sameiningu REI við einkafyrirtæki var ótvírætt ólöglegur. Þrátt fyrir að formaður lögmannafélagsins hafi verið fundarstjóri og líklega átt að fullnægja lögum og rétti með viðveru sinni. Hefði málið farið fyrir dómstóla hefði það orðið erfiður málarekstur fyrir dómskerfið þótt finna mætti einhverja lagakróka til að réttlæta fundinn. Siðferðiskennd almennings er það sterk sem betur fer. Fróðlegt verður að fylgjast með næstu skrefum í málum Orkuveitunnar og REI. Ekki er að efa að Svandís heldur fast á sínu þótt margir munu reyna að naga af henni skóinn með óvönduðum málflutningi. Vonandi næst ásættnaleg niðurstaða annars vegar með hagsmunum almennings hins vegar með einkaframtakinu.

Lög um fundarsköp - óþörf fyrir Orkuveitu Reykjavíkur?

Ákæra  Svandísar Svavarsdóttur, borgarfulltrúa vegna boðunar stjórnarfundar OR veldur vandræðum. Fundurinn er ólöglega boðaður miðað við þær reglur sem gilda um boðun fundarins.

Einkaframtakið vinnur með gróðasjónarmið að markmiði í kapphlaupi við erlenda fjárfesta og hugvit, til að virkja háhitasvæði. Svo mikið lá á að ekki þótti hægt að virða lögbundið form til boðunar fundar Orkuveitunnarað. Formaður lögmannafélagsins síðan fenginn sem fundarstjóri á fundinum til að vera staðgengill framangreindra laga að því er virðist?

Eftirfarandi er tekið úr bloggi Daggar Pálsdóttur, lögmanns í dag: “Fundurinn virðist ólöglega boðaður miðað við þær reglur sem giltu um boðun fundar. Engu að síður mættu til fundar allir sem á fundinum áttu að vera og tóku þátt í fundarstörfum. Í 4. mgr. 83. gr. laga um meðferð einkamála segir að ef stefndi sækir þing við þingfestingu máls breytir engu þótt stefna hafi ekki verið birt eða komið á framfæri við hann, galli hafi verið á birtingu eða birt með of skömmum fyrirvara. Sem sé, það er ákveðin meginregla að þótt boðun sé ólögmæt þá getur eftirfarandi málsmeðferð verið lögmæt ef þeir sem hagsmuna eiga að gæta mæta til að gæta hagsmuna sinna, þrátt fyrir ólögmæta boðun.”

Hvernig verður framhaldið ef dómstólar dæma umræddan fund löglegan á framangreindum forsendum? Geta lög um fundarsköp verið aukaatriði og óþörf ef því er að skipta? Verður hægt að kalla til lögmann sem staðgengil í hvert skipti sem lög um fundarsköp þjóna ekki hagsmunum hlutafélaga eða öðrum hagsmunaðilum?

Lítt skiljanlegt fyrir ólögfróðan eða frá almennri réttlætiskennd, að viðvera lögmanns geti gert lög óvirk þótt þau séu ótvíræð. Undirrituð hefur skilið lög um fundarsköp þannig, að þau séu til þess að gefa mönnum tíma til að undirbúa sig undir þau mál sem liggja fyrir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband