Forsetakosningar - "Á vígvelli siðmenningar"

Nú stendur  yfir fyrri umferð  forsetakosningarinnar í  Frakklandi og þeir tveir sem fá flest atkvæði fara í aðra umferð kosninga eftir nokkra daga þar sem úrslit verða væntanlega ráðin. Kemur upp í hugann  sú staða sem uppi er hér á landi, að breyting á kosningalögum fyrir forsetakosningar  þarf að fara fram miðað við þau viðbrögð, sem núverandi forseti hefur fengið í blaðaskrifum vegna nýstárlegra uppátækja í  forsetatíð sinni. Mattías Johannessen ritsnillingur og skáld birtir afar athyglisverða grein á netinu í dag sem hann nefnir “Á vígvelli siðmenningar.” 

Þar kennir ýmsra grasa sem fróðlegt er  fyrir bloggheiminn að kynna sér. 

Eftirfarandi er tekið úr umræddri grein er fjallar um óskýr lög og siðlega þáttinn: ... “Dómstólar hafa ekki við að lesa í óskýr lög frá Alþingi, en það eru smámunir miðað við byltinguna sem nú fer fram á Bessastöðum gegn stjórnarskrá landsins,eins og lagaprófessor við Háskóla Íslands hefur bent á.En hvernig væri þá að ganga hreint til verks fyrst ráðherrar og alþingismenn ráða ekkert við forseta landsins og gera embættið pólitískt með nýjum lögum,en þá verður að búa svo um hnútana að enginn geti sezt í það nema með stuðnings álitlegs meirihluta þjóðarinnar,þannig að minnihlutinn geti ekki orðið stærri en meirihlutinn eins og nú vill verða ?! Sumt er löglegt,annað siðlegt.. Þingræði ræður ekki við siðlega þáttinn. Ekki dómstólar heldur. Því miður! Við morgunblaðsmenn lentum í einu af þessum álitamálum á sínum tíma,þegar ríkissaksóknari kærið umfjöllun Agnesar Bragadóttur sem snerti uppljóstranir eða upplýsingar og bankaleynd í Landsbankanum eins og margir muna,en blaðið var sýknað án þess verjendur sópuðu til sín milljónum og agnúazt væri í fjölmiðlum út í ákæruvaldið. Málið semsagt rekið hávaðalaust og án málaliða! Engar óheiðarlegar aðferðir eða tölvupóstsþjófnaðir , engar ærumeiðingar, engir fjölmiðlalögmenn. Engar ásakanir um pólitískt upphaf málsins! En Agnes hafði sóma af málinu og hlaut fyrir það verðskuldaða viðurkenningu. Við morgunblaðsmenn töldum að okkur vegið,að vísu,en ríkissaksóknari taldi okkur brotlega. Hæstiréttur sýknaði,svo við gátum sagt eins og komizt var að orði á dögum Jónasar frá Hriflu :Guði sé lof fyrir Hæstarétt!”… Allt var þetta rekið í kerfinu eins og hvert annað kærumál og aldrei datt okkur í hug að fara í neitt skaðabótamál,enda vissum við að ríkissaksóknari var einungis að sinna því sem hann taldi embættisskyldu sína.Og hann lá ekki undir neinum ámælum,þótt hann tapaði málinu,enda enginn fugl á hendi í þeim efnum. Og enginn nefndi samsæri! Samt er æra okkar meira virði en hlutabréf í öllum tuskubúðum Lundúnaborgar! Og nú að öðru. Sumt í þessu Baugs-máli minnir ónotalega á pólitíska þáttinn í Geirfinnsmálinu, án þess það verði rifjað upp hér. Þá var stundum erfitt að stjórna Morgunblaðinu og sigla milli skers og báru,en umfjöllun blaðsins frá þeim tíma stendur eins og stafur á bók og þarf ekki að skammast sín fyrir hana,enda sagði Ólafur Jóhannesson og lét berast til mín,að augljóst væri að nazistar stjórnuðu ekki þar á bæ. En þetta voru erfiðir tímar Þá eins og nú tóku óábyrgir fjölmiðlar undir hasarinn, auðvitað. Og þannig hefur pólitík fyrr komið við sögu í dómsmálum. Það má með sanni segja að dómstóll götunnar var ekki óvirkur þá frekar en nú. Hann hefur verið Baugsmönnum hliðhollur,því þeir hafa notið vafans og sagðir í hlutverki hróahattar á matvörumarkaðnum,en andstæður olíufurstum sem leika einnig sína rullu þarna í Skírisskógi ísmauranna,svo vitnað sé til Spaugstofunnar sem hefur íslenzkt samfélag á reiðum höndum. Í hafskipsmálinu vorum við morgunblaðsmenn gagnrýndir af vinstri mönnum fyrir varkárni,jafnvel einnig af fólki sem stóð okkur nær. Vinstri menn héldu því fram að við værum að reyna að hilma yfir með sjálfstæðismönnum sem við sögu komu.Það er rétt að við fórum varlega í sakirnar,enda er dagblað ekki dómstóll,heldur upplýsingamiðill,og þá væntanlega eitthvað skárri en Gróa! Við sögðum aldrei neitt sem við höfðum ekki pottþéttar heimildir fyrir,það gerðum við ekki fyrir neina sjálfstæðismenn,heldur af nærgætni við lesendur okkar, heiður okkar sjálfra og eigin samvizku.Fyrir bragðið lágum við undir ámæli þeirra sem heimtuðu pólitískan hasar;þeirra sem telja að fjölmiðlar séu dómstólar og sakamál eigi að reka í þeim. Og þar eigi að kveða upp dómana. Þetta voru einnig erfiðir tímar og minna á Baugs-málið nú.En það er í raun og veru ekkert öðruvísi en önnur þau mál sem koma til kasta lögreglu vegna gruns um misferli,fara fyrir dómstóla og eru svo afgreidd þar lögum samkvæmt,hvort sem mönnum líkar betur eða ver. En stundum fara fjölmiðlar offari.Og þá er pólitík oftast undirrótin (og svo náttúrlega tengsl við málsaðilja, eins og dæmin sýna). Stundum eru haldnar borgarnesræður.Og þá eru þeir sem standa vörð um réttarríkið dregnir fyrir dómstól götunnar og sakaðir um réttarhneyksli,hvað sem það merkir. Rétt eins og afbrotamenn. Já,eins og Ólafur Jóhannesson dómsmálaráðherra,á sínum tíma. En hann stóð keikur og lét ekki hrekja sig úr embætti.Varði hendur sínar á þingi og óhætt að segja að ræða hans hafi verið einstök. Gula pressan hefur tekið við af beinakerlingunum gömlu,en þær voru einskonar smitberar í varnarlausu samfélagi Gróu á Leiti..Beinakerlingar voru vörður á alfaraleið þar sem menn skildu eftir leggi með níðvísum.Jónas varar við beinakerlingum í einu ljóða sinna.Nú eru reknir hér fjölmiðlar sem kenna sig jafnvel við rannsóknarblaðamennsku (!),en eru ekkert annað en beinakerlingar. Rógberar og kjaftaskar sækja í þessa nýju “fjölmiðla”eins og flugur í kúaskít.Og gulna!”…Þökk sé skáldinu fyrir einkar fróðlega grein sem segja má að sé stefnumarkandi um hvernig laga – og fjölmiðlaumhverfi við viljum búa við í framtíðnni!

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband