Ljóð: Jóhann Gunnar Sigurðsson

LJÓÐAKVEÐJA TIL HULDU

 

 

 

II. HEIMA 
Ennþá sé ég þig aftur,
ástkæra sveitin.
Söm eru fjöllin og fellin
og fossar og dalir.
En svo er ég umbreyttur orðinn,
að áður ég gladdist,
nú geng ég um grundir og mela
með grátstaf í hálsi.

Á ég að segja þér sögu,
sveitin mín góða?
Manstu eftir ljósinu ljúfa,
sem lýsti þér forðum?
Manstu eftir blóminu blíða,
sem brosti þá fegurst?
Manstu eftir Huldu, sem hjá þér
í hvömmunum undi? —

Hvers vegna er þokan að þéttast
og þyngjast á fjöllum?
Vera má héraðið hryggist
af harmtölum mínum.
Eða er það að gráta
unglinga glaða
tvo, sem týndust að heiman
í tröllbyggða hella?

Fallega sól, ertu flúin
í felur við skýin?
Þó væri þörf á þér núna,
svo þornaði af steinum.
Sendu mér geisla, svo gráti
geti ég varizt.
Mér er svo örðugt um andann
og erfitt um hjartað.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband