Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Næsti forseti Bandaríkjanna - þeldökkur?

Hillary Clinton sigraði Barack Obama og má nú telja að hún hafi aukið   möguleika sína á útnefningu sem forsetaefni. Undirrituð vonast samt til að Barack Obama verði útnefndur forsetaefni í demókrata. Clinton er engu að síður mjög frambærileg og hefur áreiðanlega aukið sjálfsmynd kvenna með framgöngu  sinni og er það vel. En þegar nánar er íhugað þá er Barack Obama  ekki síðra forsetaefni.  

Ferill bandarískra þeldökkra manna fyrir réttindabaráttu hefur verið langur; kostaði miklar fórnir er náðu hámarki þegar Martin Luther King leiðtogi þeirra var myrtur. Frá sjónarhorni mannrréttindabaráttu þeldökkra má segja að Obama sé verðugur fulltrúi þeirra er vilja réttindi til allra manna óháð litarhætti. Hann er betri kostur af tveimur afar góðum frambjóðendum demókrata.

 
mbl.is Clinton sigraði í Pennsylvaníu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgðarlaus umræða - um ESB?

 Evrópuumræðan tók  á sig nýja vídd á sunnudagskveldið þegar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingar/utanríkisráðherra lýsti því yfir bæði á Stöð2 og Ríkissjónvarpinu, að þingmenn yrðu að fara að taka afstöðu í Evrópusambandsumræðunni því nú væri kominn fram ótvíræður vilji við Evrópuaðild samkvæmt skoðanakönnun nýverið. 

Að mati undirritaðrar hefur umræðan verið áberandi meiri  í fjölmiðlum að taka verði upp Evru. Ganga inn í ESB sem allra fyrst til bjargar bönkunum og þeim sem hafa tekið eyðslulán/innlend lán/erlend lán, er fyrirsjáanlegt var að erfitt yrði að greiða  vegna eyðslu umfram greiðslugetu. Framangreind staða veldur síðan m.a. verðbólgu vegna þess að eytt er meira en aflað.

 

Ekki er hægt að segja að bankarnir hafi dregið úr hvata til að lána fyrr en í óefni var komið og þeir gátu ekki lánað meira. Seðlabankanum síðan kennt um stjórnleysið í peningamálum, sem þó er að reyna að varðveita stöðu gjaldmiðilsins eins og honum ber samkvæmt lögum – og þess fólks sem hefur með ráðdeild kosið sparnað frekar en óhóflega eyðslu.  Við þessar aðstæður er  teknar  skoðanakannanir sem eiga að stjórna efnahagsmálum þjóðarinnar. Sama virðist vera með Seðlabankann. Samkvæmt “skoðanakönnun” treystir fólk ekki Seðlabankanum. Davíð Oddson á að fara frá samkvæmt fimm hundruð manna úrtaki hjá Útvarpi Sögu.  Síðan kemur  formaður Samfylkingarinnar/utanríkisráðherra í kjölfarið og tekur undir “fjölmiðlafárið”  -og tyftar löggjafarsamkundu þjóðarinnar til hlýðni við málstaðinn að því er virðist. 

Samkvæmt framagreindu virðist vera þörf á fjölmiðlalögum til að reyna að fyrirbyggja einsleita umræðu þar sem sterkir álitsgjafar/eigendur fjölmiðla gæta  aðeins hagsmuna þröngra hagsmunahópa.   Lýðræði og ábyrg umræða sem varðar þjóðarhag í víðum skilningi virðist aukaatriði; ekki minnst á auðlindir þjóðarinnar til lands og sjávar. Eiga þær ef til vill að verða skiptimynt til að komast inn í ESB?

Vonandi verður umræðan um inngöngu ESB ábyrgari og raunhæfari í framtíðinni- ekki síst þeirra sem skipa núverandi ríkisstjórn.

    

Benedikt páfi boðberi friðar/kærleika Krists

Happy Heimsókn Benedikts páfa til Bandaríkjanna er án efa til þess fallin að vekja áhuga almennings fyrir friði ekki síst í hinu stríðshrjáða landi Írak þar sem bandaríski herinn hefur ekki náð þeim árangri í átt til lýðræðis sem skyldi. Enda takast á ólíkir menningarheimar og sundurleitir stríðs- og trúarleiðtogar sem allir telja sig hafa réttlætið að leiðarljósi. Engu að síður er hans heillagleiki páfinn sannur boðberi friðar og kærleika Krists til allra manna. Koma páfans til Bandaríkjanna eru skilaboð til þeirra (og alls heimsins)að fara með friði í stríðshrjáðum heimi.

 


“Nú er hún Snorrabúð stekkur”

Woundering Það kennir margra góðra grasa í Reykjavíkurbréfi Mbl í dag um málefni ESB og rök gegn inngöngu okkar þangað. Greinarhöfundur ritar m.a. um “trúboð” háskólakennara við háskólann í Bifröst til inngöngu okkar í Evrópusambandið.

Kaldhæðni örlaganna að einmitt þar sem Jónas frá Hriflu skóp samvinnuskólann til uppbyggingar í menntun samvinnuhugjónarinna til að efla þátt landsbyggðar bæði til sjávar og sveita;  efldi þar með sjálfsmynd og framfaramátt þeirra er vildu byggja upp atvinnulíf í landinu sjálfu við það harðbýli sem veðurfar  og lega þess  hefur skapað eyþjóð norður í Atlandshafi.

Nú er öldin önnur sú kynslóð sem situr við völd í Bifröst boðar nú inngöngu okkar í ESB sem lausn á öllum efnahagsvanda væntanlega einnig undir þeim sjónarmiðum að afsala sér auðlindum til lands og sjávar til Brussel. Baráttan fyrir frelsi okkar og auðlindum er aukaatriði. Nú getum við lifað í vellystingum, áhyggjulaus um framtíð þjóðarinnar; henni er borgið í örmum þýsku blokkarinnar sem öllu ræður þar innanstokks?

Gengið hefur verið markvisst skref fyrir skref á  framtíðarsýn og atvinnulíf  landsbyggðarinnar (-og þjóðarinnar)er Jónas frá Hriflu skóp á síðustu öld; henni  kastað fyrir róðra, stefnum hraðbyri - og hverfum brátt sem þjóð inn í Evrópusambandið?

Sannarlega er hægt að taka undir með skáldinu: “Nú er hún Snorrabúð stekkur.” - í Bifröst.

 

Kyndilmessa

Kyndilmessa, hreinsunarhátíð Maríu meyjar er í dag að gyðinglegum sið fjörutíu dögum eftir fæðingu Jesú Krists. Þá er mikil ljósadýrð við katólska guðsþjónustu; dagurinn þá kenndur við kerti og kyndla, og þaðan komið nafnið Kyndilmessa á íslensku. Munnmæli greina frá sérstöku kyndilmessukerti frá 19. öld, Maríu guðsmóður til heiðurs. Veðrabrigði þótti verða á meginlandi Evrópu á Kyndilmessu og barst veðratrúin hingað til Íslands sunnan úr álfu á 17. öld. Á sólskin þennan dag að vita snjór síðar, og hefur veðurtrúin verið umort á íslensku eftir erlendum vísubrotum og spakmælum

Munnmæli hérlendis greina frá um leifar katólks siðar að menn hafi lýst upp bæi sína á Kyndilmessu. Var kertið steypt með fyrir jól stærra en önnur og tendrað á kyndilmessu. Fundist hafa nokkur dæmi hér á landi um framagreinda siðvenju frá Helgu Halldórsdóttur(f.1903) úr Staðarsveit á Snæfellsnesi:

 “Hjá foreldrum föður míns voru steypt kerti til jólanna á haustin og eitt mjög stórt kerti var steypt og geymt til þess að kveikja á Kyndilmessukveldi. Kjartan Þorkelsson, sem var sonur  sr. Þorkels á Staðarstað og heimilisvinur foreldra minna. Hann sagði að móðir sín Ragnheiður Pálsdóttir hefði látið steypa kyndilmessukerti og var það látið loga á miðju matborði þegar kvöldmatur var borðaður á Kyndilmessu. Þetta kerti var látið loga til heiðurs Maríu Jesúsmóður". (Hauksbók, 81,95, 131, sbr. XXVI, 273, 311)   

Framangreint efni er tekið úr Sögu daganna eftir Árna Björnsson, bls  491-492.:

 Góða helgiHappy


- aftaka eða gálgahúmor?

 Góðlátlegt grín getur verið skemmtilegt en öllu gamni fylgir nokkur alvara.Þegar Spaugstofa RUV er farin að nota aðstöðu sína og skemmtir þjóðinni með persónulegum árásum á fólk þá  orkar tvímælis hvort Ríkissjónvarpið getur réttlætt kostnaðinn á almenning í landinu.

Grín spaugstofunnar á núverandi borgarstjóra, Ólaf F. Magnússon, eru beinlínis beinar persónuárásir þar sem gert var grín að veikindum hans. Skemmst er að minnast markvissra árása Spaugstofunnar á Halldór Ásgrímsson fyrrverandi forsætisráðherra marg endurteknar. Hver er tilgangur Spaugstofunnar með svona framferði? Er verið að reyna að hafa pólitísk áhrif með afar vafasömum hætti? Getur tæplega verið verjandi fyrir Ríkissjónvarpið að styðja að slíkan mismunun?     

 

Undirrituð telur að Spaugstofan sé löngu farin að lifa sjálfa sig og kominn tími til að hún leggi upp laupana. Ef það er þá ekki stefna Ríkisjónvarpsins að hafa áhrif á stjórnmál með svo lágkúrulegum hætti sem raun ver vitni? Við eigum nóga gamanleikara sem ekki eru líklegir að hafa slíka rætni í frammi og spaugstofumenn leyfa sér. Ráðast með persónulegum hætti að fólki, “taka af lífi”; eða stimpla  í hugum fólks sem óábyrgar/ óæskilegar manneskjur.  Gagnrýni í víðum skilningi á vissulega rétt á sér í opinberum fjölmiðlum en þarf að vera innan þeirra marka að draga ekki menn og málefni niður á lágkúrulegt plan. Þá helgar tilgangurinn ekki meðalið. 

Undirrituð minnist  síra Sigvalda í skáldsögu Jóns Thoroddsen er notaði undirferli og einfeldni fólks til að koma ár sinni fyrir borð; var ekki vandur að meðölum sínum. Gagnrýnin á klerkinn risti svo djúpt, að  vafasamt er, hvort nokkur maður gæti hugsað sér að læra til prests, ef hann héti  Sigvaldi. Þótt umrædd gagnrýni sé beitt beindist  hún ekki persónulega að neinum manni heldur gagnrýni á spillingu sem Jón Thoroddsen hefur talið sig finna í prestastétt, sem gegndi reyndar þá, einnig ýmsum veraldlegum störfum samfara prestsstarfinu á þeim tíma.


Listaverk allra tíma -

Nú er hafinn lestur passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar hvert kvöld kl 22:12, á RUV. Sígilt meistaraverk allra tíma - á heimsmælikvarða í bundnu máli. Sr. Ólafur Hallgrímsson les af hjartans innlifun sem glæðir lesturinn  lífi. Gott að hlusta hvert kvöld, færir skammdeginu birtu og il. Ef misst er úr  er hægt að hlusta á sálmana síðar í gegnum netsíðu RUV          

 

 Upphaf formála sr. Hallgríms Péturssonar sjálfs: “Það verður dýrast, sem lengi hefur geymt verið og gefur tvöfaldan ávöxt í hentugum tíma framborðið,” sagði Markús Varró. Umþenking guðrækileg herrans Jesú pínu og dauða er vissulega dýrmæt, og hver sigur langvaranlega gefur til þeirrar umþenkingar og ber jafnan Jesú Kristí píslarminning í sínu hjarta, sá geymir hinn dýrasta hlut. Og með því ég hef  hennar langvaranlegu íhugun mér í brjósti geymt, eftir þeirri náð, sem minn góði guð hefur mér af náð sinni gefið, þá ber ég hana nú loksins fram opinberlega í þessum sálmum fyrir öll upp á Jesúm lítandi augu og Jesúm elskandi hjörtu, svo mikið sem ég kann og ég get í þau fáorðu sálmavers innbundið.”  (...)   

Hallgrímur Pétursson p. 


Félagshyggjuöfl eða fasistar?

Sjaldan eða aldrei hefur undirrituð orðins eins hissa og að horfa á hegðun “félagshyggjuaflanna” í borginni  í beinni útsendingu frá borgarstjórnafundinum í dag. Hvernig getur fólk kallað sig lýðræðissinna sem kemur fram eins og ótíndur rumpulýður. Ekki heyrðist mannsins mál fyrir skrílslátum, varð að fresta fundi; málfrelsi og siðleg hegðun  fótum troðin. Sorglegt að sjá fráfarandi borgarstjóra nota aðstöðu sínu með því að lýsa yfir ánægu sinni með framferði síns fólks. Undirritaðri hefur fundist umræddur Dagur vilja koma kurteislega fram og virða samræðulýðræði með virðingu fyrir andstæðingum sínum. Nú brá svo við að hann misstu dómgreindina þótt hann væri aðeins að missa borgarstjórastólinn með lýðræðislegum hætti. 

Sagði Dagur, að í dag ætti að kjósa í Reykjavík, ekki bara í Ráðhúsinu, heldur í borginni allri vegna þess að borgarbúum væri misboðið. Þrátt fyrir ungliðahreyfingu Samfylkingarinnar og fimm þúsund undirskriftir getur Dagur ekki tala fyrir hönd allra borgarbúa með framangreindum hætti; eða Reykjavíkur sem höfuðborgar þjóðarinnar. Lengi mun skömm fráfarandi meirihluta verða minnst hjá þeim sem virða lög og rétt landinu.


Nýr borgarstjórnarmeirihluti

 Ef til vill verður nýr meirihluti í borginni nýtt upphaf af áhrifum Frjálslynda flokksins í stjórnmálum þar sem tekið er enn betur málum með almannaheill í huga. Nýi meirihlutinn hlýtur óhjákvæmilega að hafa áhrif almennt á stjórnmálin ef vel til tekst. Frjálslyndi flokkurinn hefur oft haldið klaufalega á málum hvað varðar innflytjendamál og sjávarútvegsmál. Nú síðast með grein Jóns Magnússonar nýlega um fiskveiðistjórnun. (sjá logos.blog.is). Kvótakerfið þarf endurskoðunar við en verður ekki hent fyrir borð heldur þarf að vinna markvisst að endurbótum/eftirliti.

Sama má segja um málefni innflytjenda þar þarf  frjálslyndi flokkurinn  að vera betur á raunhæfum nótum. Innflytjendur eru komnir til að vera þurfa tækifæri til náms og aðlögunar til að geta tekið þátt í samfélaginu; og orðið nýtir borgarar. Engu að síður þarf að sjá til þess að þeir útlendingar sem koma með afbrot í huga fái ekki að skjóta rótum. Umræða Frjálslyndra hefur ekki borið í sér nægilega mannheill sem æskileg væri. Andstæðingum Frjálslyndra í síðustu kosningabaráttu tókst í umræðunni, að sýna fram á að frjálslyndir væru rasistar í augum almennings.

Þá hafa innanflokkserjur Frjálslynda  flokknum dregið úr trausti flokksins. Ekki tekur betra við  í nýjum borgarstjórnarmeirihluta þar sem fulltrúar Ólafs Magnússonar ætla ekki að styðja nýja meirihlutann. Margrét Sverrisdóttir ætlar að fella meirihlutann ef Ólafur forfallast. Ólafur á á erfitt starf fyrir höndum að verjast sínum eigin fulltrúum til að halda velli í borgastjórn. Vonandi tekst Ólafi  að halda sjó og ná sér í betri háseta í framtíðinni.

Undirrituð óskar nýja borgarstjórnarmeirihlutanum  velfarnaðar í starfi.

Alþjóðleg bænavika - Níuviknafasta – Bræðramessa.

 

Níuviknafasta hefst í dag ( 20.jan)samkvæmt Almanaki Háskóla Íslands og kaþólskri  trú. Nú stendur yfir  alþjóðleg bænavika kristinna manna fyrir samstöðu kirkjunnar (18-25 janúar). Bræðramessa er kennd við tvo óskylda píslarvotta kaþólsku kirkjunnar: Annar er Sebastíanus (d.300) og er talinn rómverskur hermaður. Fyrst var hann skotinn örvum og síðan barinn til bana, grafinn í katakombunum við Via Appia utan Rómar. Hinn er Fabíanus páfi og píslarvottur sem valdist til embættis vegna þess að dúfa settist á höfuð hans á kjörfundinum. Varð helgur maður, líkamsleifar hans voru fluttar í Callistusar-katakompurnar þar sem líkamsleifar þeirra bræðra eru nú sameinaðar. Af Sebastíanusi er til handritsbrot á íslensku frá 14. eða 15 öld. Hann var aukadýrlingur kirkna á Innrahólmi og Görðum á Akranesi. (Saga daganna: Árni Björnsson)

Samkvæmt heimasíðu Kaþólsku kirkjunnar á Íslandi:  

 18. - 25. janúar
Alþjóðleg bænavika kristinna manna fyrir samstöðu kristninnar
Við biðjum fyrir einingu meðal allra kristinna manna, eins og Jesús sjálfur gerði. Jesús sagði: "Ég bið ... að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig. (Jn 17.20-21)
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband