Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
26.10.2007 | 07:45
Getur lögmaður verið staðgengill laga?
Það sem veldur vandræðum í Orkuveitumálunum er að þar takast á annars vegar félagsleg sjónarmið og hinsvegar einkaframtak., virðast ósættanleg. Einkaframtakið vinnur með gróðasjónarmið að markmiði í kapphlaupi við erlenda fjárfesta og hugvit, til að virkja háhitasvæði. Svo mikið lá á að ekki þótti hægt að virða lögbundið form til boðunar fundar Orkuveitunnar. Formaður lögmannafélagsins síðan fenginn sem fundarstjóri á fundinum til að vera staðgengill framangreindra laga. Lítt skiljanlegt fyrir ólögfróðan að viðvera lögmanns geti gert lög óvirk þótt þau séu ótvíræð. Hvernig verður framhaldið ef dómstólar dæma umræddan fund löglegan á framangreindum forsendum? Verður hægt að kalla til lögmann sem staðgengil í hvert skipti sem lög um fundarsköp þjóna ekki hagsmunum hlutafélaga eða öðrum hagsmunaðilum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:36 | Slóð | Facebook
17.10.2007 | 09:05
Vilhjálmur góður borgarstjóri
Vilhjálmur markaði farsæla stefnu í menntamálum og velferðarmálum sem vonandi verða ekki rifnar niður af núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Hann var sýnilegur borgarstjóri á vettvangi eins og fram kom í brunanaum í miðborg Reykjavíkur s.l. sumar. Óskandi að núverandi meirihluti borgarstjórnar beri gæfu til að ganga þann veg sem fráfarandi borgarstjóri hefur markað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2007 kl. 17:53 | Slóð | Facebook
16.10.2007 | 09:18
Ábyrg áfengisneysla - áfengi ekki almenn neysluvara.
Þökk sé Mbl. fyrir ábyrga afstöðu í dag um áfengisfrumvarpið sem nú liggur fyrir Alþingi. Sterkar raddir þingmanna er tóku þátt í umræðunni á Alþingi í gær voru einnig með ábyrgum hætti þar sem þeir sýndu fram á hvað samfélagslegt böl væri alvarlegt vegna áfengisdrykkju. Áfengi er vímuefni sem ber að höndla samkvæmt því og á ekki erindi inn í almennar verslanir frekar en lyf sem seld eru í apótekum. Takmarkað aðgengi er t.d. að verkjalyfjum sem eru seld í skömmtum. Ekki heyrist nein óánægja með framangreint fyrirkomulag.
Að selja áfengi í matvöruverslunum við hlið matvara gefur þau skilaboð að vín sé neysluvara sem sjálfsagt er að neyta hvenær sem er. Það eru röng skilaboð út í samfélagið og dregur úr ímynd um skaðsemi áfengis. Rannsóknir erlendis sýna ótvírætt að frjáls óheft sala áfengis eykur áfengisdrykkju. Suður í Evrópu hafa menn áhyggjur af ofneyslu áfengis og eru að reyna fyrirbyggjandi aðgerðir. Umrædd svæði þarna suður frá eru með mikla vínræktun og ódýrt vín. ESB hefur og ætlar að taka á áfengisvandanum með markvissum aðgerðum. Ennþá heyrist lítið um það í fréttum hér á landi.Reynsla Finna við lækkun áfengisskatta olli mikilli aukningu áfengisdrykkju. Eru þeir nú að hverfa frá þeirra stefnu og hyggjast hækka skattana aftur.
Ekki er ofmælt að 10% landsmanna hér á landi eigi við áfengis- og eiturlyfja vanda að ræða. Af vímuefnaneyslu má reikna með að áfengi sé 90% af vímuefnavandanum. Auðvelt dæmi að reikna. Þrjátíu þúsund manns hér á landi eiga við alvarlegan áfengisvanda að stríða. Ekki ofreiknaða að stórfjölskylda hvers og eins sé a.m..k fimm manns. Fimm sinnum 30.000 manns eru þá eitthundrað og fimmtíu þúsund manns sem tengjast vímuefnum og því böli sem þau valda.
Undirrituð tekur undir af öllu hjarta með Morgunblaðinu og þeim þingmönnum sem mæltu móti áfengisfrumvarpinu. Framangreint frumvarp á ekki erindi í gegnum Alþingi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook
1.10.2007 | 16:04
Sjónvarpið sniðgengur hefðir - við setningu Alþingis
Sjónvarpið hefur nú sem endranær sleppt útsendingu messugjörðar í Dómkirkjunni sem þó hefur verið órofahefð við setningu Alþingis. Undirrituð telur að með því sé sjónvarpið að sniðganga kristna trú og þá hefð sem ávallt hefur ríkt við setningu Alþingis. Presturinn, nú sr. Halldór Gunnarsson, flutti ágæta prédikun er var gott innlegg til umhugsunar fyrir þingmenn sem nú hefja störf.
Hvers vegna sjónvarpið hefur siðgengið þessa órofa hefð, að messugjörð sé leiðarljós þeim sem hefja störf alþingis er lítt skiljanleg?
Hér virðist þurfa bein afskipti stjórnvalda, að þær hefðir sem eru til staðar við setningu Alþingis séu framkvæmdar í útsendingu ríkissjónvarpsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook
29.9.2007 | 15:16
Forsætisráðherra tekur af skarið - um ESB
Ekki á dagsskrá hjá núverandi ríkisstjórn að sækja um aðild ESB á þessu kjörtímabili segir forsætisráðherra. Þá vita spákaupmenn og stuðningsmenn/Samfylking ESB hvað er framundan. Vonandi slá þessi ummæli forsætisráðherra á þá ábyrgðarlausu umræðu um ESB sem mest er áberandi eða einhliða upptaka Evru, sem aðeins veldur tortryggni í fjármálum þjóðarinnar.
ESB er ekki fríverslunarbandalag heldur er það tollabandalag sem hindrar innflutning á vörum til að vernda eigin framleiðslu. Nú nýlega hefur ESB sett skorður á innflutning á kínverskum textilvörum sem Frakklandsforseti telur ásættanlegt, að kaupa ekki af fátækum löndum. ESB stundar sem sagt ekki neina mannúðarstefnu í viðskiptum.
ESB kaupir af okkur fiskinn til þess að tryggja sér matvæli sér til viðurværis í framtíðinni. Hafa þess vegna látið sér nægja aðild okkar að EES hingað til. Það væri glapræði að ganga inn í ESB og framselja fiskimiðin/auðlindirnar. Umræðan ætti fremur að snúast um hvað yrði þá?
![]() |
Geir H. Haarde: Að taka upp evru einhliða álitið veikleikamerki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook
23.9.2007 | 13:45
Stefna Samfylkingar - eyðing landsbyggðar – Ísland borgríki?
Utanríkisráðherra fer mikinn um helgina til kynningar stefnu Samfylkingarinnar. Hennar eigin stjórnarstíll hefur ekki breyst þar sem hún ræðst á samstarfsflokkinn í ríkistjórn sér til framdráttar. Erfitt hlýtur að vera fyrir stjórnmálamann að ná árangri í samstarfi ríkisstjórnar, sem alltaf horfir til baka og veltir sér upp úr því sem miður hefur farið í stað þess að horfa fram á veginn og vinna í samstarfi við þann flokk sem hann starfar með.
Fjáraustur úr ríkiskassanum í svokallaðar mótvægisaðgerðir er miklu nærtækara dæmi um stefnuleysi. Er aðeins til að slá ryki í augu almennings þar sem stefna Samfylkingarinnar virðist vera að eyða landsbyggðinni, að Ísland verð borgríki við Faxaflóann og gangi síðan í ESB. Ekki er hægt að kalla samgöngur, atvinnu eða menntun úti á landi mótvægisaðgerðir. Þær eru sjálfsögð þróun burtséð frá hvaða ríkisstjórn situr við völd. Sama má segja um aðstoð við þá sem minna mega sín svo sem sjúka og þá sem lægst hafa launin. Þar er hlutur Samfylkingar ekki stærri en annarra flokka sem setið hafa í ríkistjórn/borgarstjórn.
Nefna má stefnuna í mennta málum sem mætti ígrunda betur með heilstæðri stefnu í háksólamenntun bæði á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi. Undirrituð hefur nefnt Háskólann að Bifröst í bloggi sínu, sem dæmi um óþarfa fjárfestingu, í stað þess að auka menntun í helstu byggðakjörnum út um landið með beinum tengslum við skipulagningu menntunar háskólanna í Reykjavík og Akureyri.
Nú stendur fyrir dyrum að leggja niður mjólkurframleiðslu í heilum landshluta fyrst og fremst til að styrkja fyrirtæki í Reykjavík. Hagur mjólkurframleiðslu bænda eða neytenda á Austurlandi er ekki inni í myndinni. Hér er bein aðför að heilum landshluta til þess að landbúnaður verður lagður niður. Engin hugsun um þá kjölfestu að landbúnaður sé nauðsynlegur til að tryggja framleiðslu landbúnaðrafurða í eigin landi. Landi þar sem allar forsendur eru til framleiðslu hollra vara og mengun í lámarki miða við víða erlendis.
Fróðlegt verður að heyra viðbrögð Samfylkingar/stjórnarinnar við framagreindri eyðingu ef þá nokkur verða?
Uggvænlegt að ríkistjórn með svo mikinn meirihluta á þingi skuli ekki horfa með meiri víðsýni til allrar þjóðarinnar þegar helstu hagsmunamál svo sem menntun/atvinna og önnur uppbygging úti á landi er afgreidd með ölmusu úr ríkiskassanum til að lina þjáningar eyðingarinnar úti á landsbyggðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:58 | Slóð | Facebook
22.9.2007 | 13:10
Mjólka til Austurlands - framhald
Fróðlegt væri að sjá hvernig sú rekstrarhagfræði er sett fram, fyrir hverja er hún hagkvæm? Til þess að framangreind fyrirtæki geti orðið hagkvæm þá á að leggja niður mjólkurframleiðslu sem þjónar öllu Austurlandi. Er hagkvæmt að aka mjólkinni til neytenda frá Akureyri um allt Austurland allt árið hvernig sem viðrar? Hlýtur að vera nauðsynlegt að framleiða frumþarfir eins og helstu mjólkurvörur á svæðinu?
Vonandi sér Mjólka hið nýja einkafyrirtæki í mjólkuriðnaði sóknarfæri og vinnur úr mjólkurafurðum á Austurlandi til hagsbóta og öryggis bæði fyrir neytendur og bændur.
Í vikulokin þætti RUV (í morgun), sem stjórnað var af fréttamanni af Egilsstöðum til skamms tíma þar sem fréttir vikunnar voru ræddar kom fram að ekkert væri við því að segja þó mjólkurvinnsla væri lögð niður á Austurlandi. "Er í þágu hagræðingar og samkeppni", sagði konan í þættinum (nafn?).
Stjórnandi kom ekki með neinar spurningar um í hverju hagræðingin væri fólgin. Enda var þættinum útvarpað frá Akureyri. Tæðlega hlutlaust af RUV, að umræða sé á Akureyri um að leggja niður mjólkuriðnað á Austulandi, Akureyringum til hagsbóta. Undirrituð tók eftirfarandi frétt úr Málgagni bænda og landsbyggðar frá því í gær:
"Búnaðarsamband Austurlands mótmælir tillögum MS
Á stjórnarfundi Búnaðarsambands Austurlands sem haldinn var í gær var samþykkt ályktun þar sem þeim tillögum sem stjórn MS hefur lagt fram um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum er harðlega mótmælt. Í ályktuninni segir:
Stjórn Búnaðarsambands Austurlands mótmælir harðlega þeim tillögum sem stjórn MS hefur lagt fram um að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilsstöðum.
Mjólkurframleiðsla er veigamikill hlekkur í þeim landbúnaði sem stundaður er hér á Austurlandi og landbúnaður er mikilvægur bæði hvað varðar atvinnulíf, samfélag og ásýnd landshlutans. Stjórn BsA óttast að með því að hætta fullvinnslu mjólkur veikist staða landbúnaðar á svæðinu og erfiðara verði að halda úti fullnægjandi þjónustu við atvinnugreinina og þannig dragi úr eðlilegri framþróun.
Í nafni hagræðingar hafa á síðustu árum verið lagðar niður tvær mjólkurstöðvar á starfssvæði BsA, í Neskaupsstað og á Vopnafirði. Framleiðsla af þessum svæðum hefur í auknum mæli verið að færast yfir á Fljótsdalshérað og nær núverandi mjólkurstöð. Bændur hafa lagt metnað sinn í að halda uppi framleiðslu þannig að áfram verði grundvöllur fyrir rekstri samlagsins á Egilsstöðum eins og lofað var við samruna við MBF. Þessi þróun í framleiðslu mjólkur sýnir okkur hvað muni gerast hér á næstu árum ef mjólkurstöðin verður lögð niður og mjólkinni ekið til vinnslu og pökkunar í aðra landshluta.
Með því að hætta rekstri mjólkurstöðvarinnar á Egilsstöðum er vegið að landbúnaði sem atvinnugrein í heilum landsfjórðungi. Stjórn BsA lýsir undrun sinni á að fyrirtæki í eigu bænda um allt land skuli ætla að stíga fyrsta skrefið til þess. Stjórnin hvetur fulltrúaráð og stjórnendur MS til að skoða málið frá fleiri sjónarhornum, því þó hagræðing geti verið nauðsynleg, þá getur komið að því að hún fari að valda óhagræði fyrir það fólk sem byggir landið".
Tæplega trúverðug að fyrirtæki eins og mjólkursamsamsalan, sem hefur allt að því einokun á mjólkuriðnaði haldi fram hagræðingu til að að leggja niður mjólkuriðnað í heilum landshluta án þess að greint sé frá forsendum.
Mjólka hið nýja fyrirtæki ætti að hafa alla burði til að sýna fram á hagkvæman rekstur á Austurlandi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:46 | Slóð | Facebook
19.9.2007 | 07:30
Háskólann að Bifröst - til Húsavíkur - til Ísafjarðar - til Egilsstaða
Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Háskólinn á Akureyri eru menntastofnanir sem bera uppi þá hákskólamenntun sem geta verið samkeppnisfærar á alþjóðlegum grunni. Ekki virðist þörf á uppbyggingu fleiri slíkra háskóla. Væri fjármunum betur varið til frekari uppbyggingar háskóla/ háskólasetra úti á landi sem yrðu í tengslum við stóru háskólana.
Að flytja háskólann að Bifröst með markvissri skipulagningu til Húsavíkur, til Ísafjarðar, til Egilsstaða gæti verið skynsamleg aðgerð og myndi verða vítamínsprauta til uppbyggingar háskólamenntun og fjölbreyttu atvinnulífi úti á landi. Byggðirnar fengju með háskólasetri vel menntað metnaðarfullt fólk sem yrði styrkur til betri lífskjara og framfara á öllum sviðum.
Færi vel á því að félagsfræði og hagfræði (- Hriflusetur -) yrðu kennd á Húsavík, mætti bæta við samvinnufræðum og viðskiptalögfræði. Þar nyrðra var áður fyrr sett á stofn samvinnuverslun með framtaki og hæfilegri félagshyggju sjálfmenntaðra manna; sem þá var nauðsynleg til að fá raunverulegt verslunarfrelsi. Má reikna með góðum jarðvegi þar til að þróa áfram framtak, frelsi og félagsgreinar í þágu landsbyggðarinnar og þjóðarinnar sem heild til að halda jafnvægi í byggðum landsins.
Landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra skrifar í grein sinni í Fréttablaðinu (18.sept.) Í þágu unga fólksins og byggðanna: Ef við ætlum að eiga möguleika til þess að takast á við samkeppnina í okkar þjóðfélagi þá verður sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn að geta lagt að mörkum sambærileg kjör. Ella flýr fólkið þessar atvinnugreinar, unga fólkið hefur ekki áhuga á að hasla sér völl og við verðum einfaldlega undir.
Með stjórnvaldsaðgerð hafa kjör sjávarbyggða verið skert verulega. Sjómenn hafa misst sem svarar mánaðartekjum vegna styttri sjósóknar aðrir misst atvinnuna alveg. Slík skerðing verður ekki leyst með- námskeiðum - hér og námskeiðum - þar þegar horft er til framtíðar. Markviss þróun háskólamenntunar úti á landsbyggðinni tryggir best framtíð unga fólksins. Til þess þarf stjórnvaldsaðgerð til breytinga á háskólamenntun og færa hana markvisst út á land í tengslum við háskólana á Reykjavíkursvæðinu og Akureyri.
Háskólinn að Bifröst þjónar ekki kröfum nýs tíma vegna staðsetningar sinnar. Áður fyrr meðan hann var og hét Samvinnuskóli þjónaði hann markmiðum samvinnuverslunar og uppbyggingu hennar en er liðin tíð. Starfsemin sem nú fer fram í Bifröst er tæplega í takt við þá þróun í menntun til framfara, sem þarf að verða með skjótum hætti úti landsbyggðinni.
Bifröst sem háskólasetur fyrir háskólann í Reykjavík gæti veið hugmynd sem vert væri að ígrunda? Ekki óraunhæft að framangreindar hugmyndir um háskóamenntun úti á landi gæti orðið að veruleika á fimm árum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 20.9.2007 kl. 17:46 | Slóð | Facebook
12.9.2007 | 21:57
Herferð gegn framtaki og frelsi
Þá hafa svokallaðar mótvægisaðgerðir ríkistjórnarinnar verið birtar en þola tæplega dagsins ljós. Fyrst er dregið úr atvinnulífinu úti á landsbyggðinni með of mikilli skerðingu þorskkvótans. Með því er vegið að atvinnulífi og sjálfsmynd byggðarlaga. Öll þjónusta dregst saman og fjöldi fólks missir atvinnuna og kjör allra versna til muna.
Til hvers á að efla menntun og leggja vegi ef ekki er öflugt atvinnulíf fyrir, sem kjölfesta.? Undarleg hagfræði sem reiknast á stefnu jafnaðamanna með samþykki Sjálfstæðismanna, sem eru þó merkisberar framtaks og framfara. Samfylkingin eys úr sjóðum ríkisins til að viðhalda svokallaðri jafnaðarstefnu án þess nokkur markmið um atvinnuuppbyggingu sé að ræða. Uggvænlegt hvað þessi ríkistjórn hefur mikinn meirihluta þar sem Samfylkingin virðist hafa megin frumkvæði í stefnumörkun, að draga sem mest úr atvinnulífi og framtaki landsbyggðarinnar.
Athyglisvert að forsætisráðherra kynnti ekki mótvægisaðgerðirnar/ölmusuna" handa landsbyggðinni; enda eru þær fjarri stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.9.2007 kl. 21:58 | Slóð | Facebook
5.9.2007 | 08:43
Auglýsing - lifandi - boðskapur Krists?
Auglýsingin um síðustu kvöldmáltíð Jesúm Krists er nýlunda en vakti ekki hneykslun undirritaðrar en mun án efa valda heilabrotum og umræðum. Kristur er jú, Guð og maður samkvæmt kristinni trú. Hann fær mikla nánd sem maður í auglýsingunni. Júdas lærisveinn hans fær mikla athygli sem svikari félaga sinna. Rómversku hermennirnir sjást í baksýn við Júdas segja allt sem segja þarf. Kristur var hættulegur rómverska heimsveldinu með því að fara með friði með kröfum sínum um réttlæti handa þjóð sinni og reyndar öllum heiminum.
Meðan auglýsingar ganga ekki svo langt að vera "antikristnar", gætu þær ef til vill fært kristinn boðskap nær nútímanum ef guðfræðimenntaðir hafa tillögurétt um efni þeirra.
Ekki veitir af nánd Krists í dagsins önn, hann er ekki bara upphafinn Guð á stalli.
Undirrituð hættir sér ekki út í frekari guðfræðilega umræðu. Auglýsingin var samkvæmt framangreindu Jesús Kristur í myndrænum búningi með friðarboðskap og réttlæti þar sem svik, undirferli og óréttlæti heimsins voru til staðar rétt eins og í nútímanum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.9.2007 kl. 11:50 | Slóð | Facebook